Aðstoðarfólk þitt á rétt á góðu starfsumhverfi og þitt daglega líf er í raun starfsumhverfi þess. Það er á þína ábyrgð sem verkstjórnanda og á ábyrgð NPA miðstöðvarinnar sem vinnuveitanda, að vinnuumhverfi og öryggi aðstoðarfólks á vinnustaðnum sé samkvæmt þar til gerðum reglum. Til að markmið um gott starfsumhverfi náist þurfum við, NPA miðstöðin og þú að hjálpast að. Aðeins þú sem verkstjórnandi veist hvað aðstoðarfólk þitt á að gera í vinnunni. Það er líka þú sem ákveður hvar og hvernig það á að vinna. Við hjá NPA miðstöðinni þekkjum hins vegar leikreglurnar og höfum reynslu af því að greiða úr flækjum og leysa vandamál.
Vinnuumhverfi er allt umhverfi sem aðstoðarfólk þitt dvelur í meðan það vinnur hjá þér. Til dæmis getur vinnuumhverfi átt við um loftgæði, hljóð (hávaða), birtustig eða vinnutæki, aðstöðu í vinnuhléum, skipulag vinnunnar, samskipti o.fl. Vinnuumhverfi getur haft mikil áhrif á líðan aðstoðarfólks og haft mikið um það að segja hvort aðstoðarfólki líði vel í vinnunni eða ekki.
Samkvæmt lögum verður þú að framkvæma svokallað áhættumat vegna vinnuumhverfis þíns aðstoðarfólks. Með því að útbúa áhættumat fyrir þitt aðstoðarfólks og vinnustaðinn sem þú býður upp á vinnur þú markvisst að því að koma auga á mögulegar áhættur og koma í veg fyrir slys og meiðsli áður en þau gerast. Þetta þýðir:
THversu margar vinnustundir aðstoðarfólks hefur þú sem verkstjórnandi úr að spila?
THversu margar vinnustundir aðstoðarfólks hefur þú sem verkstjórnandi úr að spila?
Hér getur þú nálgast form til að fyllal út áhættumat. Áhættumat. Þú fyllir formið út með aðstoðarmanneskju þinni, þannig að aðstoðarfólk þitt fái tækifæri til að hafa áhrif á þá þætti sem betur mættu fara í þínu starfsumhverfi.
Þú getur alltaf fengið aðstoð frá ráðgjafa þínum hjá NPA miðstöðinni við að fylla út áhættumatið.
Persónuleg aðstoð getur verið afar líkamlegt starf fyrir aðstoðarfólk. Það er mikilvægt fyrir þig að hafa í huga að þitt daglega líf er ekki bara þitt líf, heldur er þitt daglega líf einnig vinnuumhverfi þíns aðstoðarfólks. Aðstoðarfólkið ætti ekki að þurfa að leggja sig í hættu í vinnunni, meiða sig eða fara illa með líkama sinn. Þú berð ábyrgð á því að aðstoðarfólk þitt slasi sig ekki.
Sumir hlutir sem þér finnst í lagi að gera á ákveðinn hátt eða með einhverjum tækjum, finnst aðstoðarfólki þínu kannski ekki í lagi. Gott er að hafa í huga að þó þú getir ákveðið fyrir þig hvernig þú framkvæmir ýmis verkefni, þá finnst aðstoðarfólki það kannski ekki hafa val, þegar þú sem verkstjórnandi segir því hvað skal gera og hvernig.
Þó þér finnist t.d. ásættanlegt að staðið sé á vönduðum eldhússtól til að ná í hluti upp í eldhússkáp þá gæti aðstoðarfólk átt erfitt með það eða fundist það óþægilegt. Í því tilviki getur þú bætt vinnuaðstöðuna með því til dæmis að kaupa tröppur fyrir aðstoðarfólkið eða þá valið að staðsetja hluti í neðri hillum eldhússkáps.
Þú getur bætt líkamlegt vinnuumhverfi aðstoðarfólks þíns með því að huga vel að réttum búnaði, hjálpartækjum, vinnutækni og hvernig starfið er skipulagt.
Passaðu upp á að vera með góð vinnutæki fyrir aðstoðarfólkið þitt. Það getur til dæmis verið skúringasköft sem eru með hreyfanlegum ás, svunta og hanskar til að gæta upp á hreinlæti, tröppur til að ná upp í efri skápa eða til að skipta um ljósaperur o.fl. Þú getur einnig keypt vinnufatnað fyrir aðstoðarfólkið þitt, til dæmis inniskó o.fl.
Þú getur keypt búnað svo að aðstoðarfólkið þitt meiðist ekki eða slasist. Til dæmis getur það verið léttur rampur, bretti, slökkvitæki eða álíka. Þú getur nýtt framlag til starfsmannakostnaðar til að standa straum af þessum útgjöldum.
Þú verður að ganga úr skugga um að aðstoðarfólk þitt noti rétta tækni og beri sig rétt að þegar það aðstoðar þig. Þú getur sent aðstoðarfólkið á námskeið í líkamsbeitingu hjá NPA miðstöðinni. Þú getur líka heyrt frá sjúkraþjálfara eða iðjuþjálfa á vegum NPA miðstöðvarinnar sem kemur til þín og fer í gegnum daglegt líf þitt með þér. Þú getur líka ákveðið hvaða tæki þarf að kenna aðstoðarfólki þínu á og hvernig á að þjálfa aðstoðarfólkið í notkun þeirra. Þú getur enn fremur lært hvernig best er að gefa aðstoðarfólki þínu leiðbeiningar. Hafðu samband við ráðgjafa þinn hjá NPA miðstöðinni ef þú ert óviss/t um hvert þú átt að snúa þér.
Hafðu í huga að allir staðir sem þú ert á hverju sinni í daglegu lífi eru vinnuumhverfi aðstoðarfólks. Þetta á m.a. við um heimili þitt og hvernig þú innréttar heimilið. Er nóg pláss fyrir aðstoðarfólkið til að aðstoða þig við mismunandi aðstæður? Getur þú deilt stórum og þungum verkefnum, svo sem stórþrifum, á nokkrar vaktir eða mismunandi aðstoðarfólk?
Hjálpartæki eru til að tryggja að þú hafir þau tæki sem þú þarft og að þau virki einnig fyrir aðstoðarfólk þitt, til dæmis að þú hafir líkamslyftara sem þú getur tekið með þér í ferðalag. Þú getur haft samband við skrifstofu NPA miðstöðvarinnar ef þér hefur verið synjað um umsókn um hjálpartæki sem þú þarft bæði fyrir þig og aðstoðarfólk þitt.
Félagslegt vinnuumhverfi hefur að sjálfsögðu áhrif á hvernig aðstoðarfólki þínu líður í sínu starfi.
Félagslegt vinnuumhverfi felur m.a. í sér samstarf þitt og aðstoðarmanneskjunnar, hvernig störf aðstoðarmanneskju eru skipulögð og þær kröfur sem þú gerir um framkvæmd tiltekinna verkefna.
Það er alltaf mikilvægt fyrir þig að vera meðvituð/aður/að um að heimili þitt og daglegt líf er vinnustaður aðstoðarfólks þíns. Þú og þitt aðstoðarfólk mætast ekki á jafningjagrundvelli, þar sem þú hefur meiri rétt og tekur ákvarðanir um það hvernig samstarfi ykkar skuli vera háttað. Þú ákveður hvað aðstoðarmanneskjan þín gerir og hvernig. Þú ákveður hvenær það er gert og hvar. Á sama tíma getur það tekið á þig sem verkstjórnanda að vera með aðstoð. Það getur verið óþægilegt að hafa aðra manneskju nærri sér við ýmsar aðstæður. Ef þú ert meðvituð/aður/að um þetta verður auðveldara að höndla slíkar aðstæður.
Það kann að hljóma undarlega að þú þurfir að vera skipulögð/skipulagður/skipulagt til að geta verið hvatvís/t og lifað sjálfstæðu lífi. En ef þú hugsar um hvernig þú myndir vilja að aðstoðarfólk þitt geri ólíka hluti, hvað þarf til að geta gert það sem þarf að gera og hvenær á að gera hlutina munt þú komast að því að þú ert bæði fær um að gera það sem þú þarft að gera og hafa tíma til þess að vera hvatvís/t og sjálfstæð/stæður/stætt.
Skipulagning verður mikilvægari eftir því sem þú hefur úr færri vinnustundum aðstoðarfólks að spila. Skipulagning er einnig mikilvæg og góð fyrir aðstoðarfólk þitt. Þegar aðstoðarfólk veit við hverju skal búast verður auðveldara fyrir það að vinna sína vinnu vel og líklegra að því líði vel í vinnunni.
Þú getur auðveldað aðstoðarfólki þínu að standa sig vel í vinnunni með því að leiðbeina því og gefa skýr fyrirmæli. Það getur verið mjög streituvaldandi fyrir aðstoðarfólk að vera óvisst um hvað það á að gera í vinnunni, hvernig það á að gera tiltekna hluti eða hvernig þú vilt að það sé við tilteknar aðstæður.
Þegar aðstoðarfólk gerir mistök vegna þess að þú varst ekki að fylgjast með, gafst ekki fullnægjandi leiðbeiningar eða fyrirmæli og útskýrðir verkefnið ekki nægilega vel, berð þú ábyrgð sem verkstjórnandi. Útskýrðu hvað þú vilt gera og hvernig þú vilt að aðstoðarfólk þitt starfi. Það sem þér finnst augljóst er kannski ekki eins augljóst fyrir aðstoðarfólkinu þínu. Vertu skýr þegar þú gefur fyrirmæli. Segðu aðstoðarfólki þínu að spyrja þig hvernig þú vilt að hlutirnir séu gerðir ef það hefur ekki vissu um það. Biddu aðstoðarfólk um tillögur eða aðrar lausnir ef þú vilt.
Þú færð sérstakt framlag frá þínu sveitarfélagi sem þú getur meðal annars nýtt til þess að gera vinnuaðstöðuna fyrir aðstoðarfólk á heimilinu þínu betri. Þú getur keypt húsgögn, búnað og annan húsbúnað sem er ætlaður aðstoðarfólki. Húsbúnaður getur verið til dæmis: rúm, rúmföt, sæng, koddi, fataskápur eða fatakommóða, stóll, borð, lýsing, spegill. Þú getur notað fjármagn af starfsmannakostnaði NPA samningi þínum til að útbúa aðstöðu fyrir aðstoðarfólk og þann kostnað sem þú berð af því að vera með aðstoðarfólk heima hjá þér. Þannig getur þú til dæmis keypt kaffivél og kaffi fyrir aðstoðarfólkið þitt o.s.frv.
Hvíldaraðstaða verður að vera til staðar fyrir aðstoðarfólk og gera þarf ráð fyrir að það geti sofið í viðunandi aðstæðum þegar um hvíldarvakt er að ræða. Það bætir vinnuumhverfi aðstoðarfólks verulega, ef hægt er að bjóða því sérstakt herbergi. Ekki geta allir verkstjórnendur boðið aðstoðarfólki sínu upp á sérstakt herbergi en í þeim tilvikum er engu að síður mikilvægt að aðstoðarfólki sé boðið svæði sem er aðgreint frá öðrum rýmum og að aðstoðarmanneskjan geti átt þar frið og ró.
Þú getur t.d. keypt gluggatjöld eða sambærilegt til að deila herbergi í aðskilin rými, ef þú ert ekki með sérstakt herbergi sem ætlað er fyrir aðstoðarfólk. Sömuleiðis eiga salerni, sturta og möguleiki á að geyma mat í kæli og hita mat, að vera nálægt svefnsvæði aðstoðarfólks. Lestu meira um þetta undir kaflanum „Hvíldaraðstaða á hvíldarvöktum“.
Ræddu við ráðgjafa þinn um hvernig þú getur bætt þína starfsmannaaðstöðu. Lestu meira undir kaflanum „Fjárhagsleg atriði“ um það sem á við.
Ein leið til að lágmarka áhættu getur verið að sjá aðstoðarfólki þínu fyrir fræðslu og þjálfun. Menntun getur veitt bæði góð gæði og öryggi í aðstoð við þig og skapað aðstoðarfólkinu gott starfsumhverfi. Ef aðstoðarfólkið þitt er sjálfsöruggt og fært um að koma til móts við þarfir þínar verður það öruggara í hlutverki sínu.
Þjálfun getur líka verið almennari, svo sem þjálfun í skyndihjálp, brunavörnum eða líkamsbeitingu. Margir verkstjórnendur skipuleggja þjálfun í líkamsbeitingu sem byggir á þeirra þörfum og sínum eigin tilteknu aðstæðum. Iðjuþjálfar gætu komið heim til þín og þjálfað aðstoðarfólkið þitt byggt á því hvernig þín þörf fyrir aðstoð er og hvernig þitt aðstoðarmannaumhverfi lítur út. Þú tekur ákvörðun um hvaða þjálfunar er þörf í aðstoð við þig. NPA miðstöðin útvegar fræðslu og námskeið fyrir þitt aðstoðarfólk, eftir þínu höfði.
Þegar Jóhann og aðstoðarmenn hans fara í gegnum áhættumatið uppgötva þeir að nokkrir aðstoðarmenn telja að það geti verið líkamlega erfitt fyrir þá að aðstoða Jóhann við að fara í sturtu. Aðstoðarmennirnir telja einnig að það væri gott fyrir þá að fá þjálfun í vinnuvistfræði vegna annarra verkefna í vinnunni. Ráðgjafi Jóhanns hjá NPA miðstöðinni bendir Jóhanni á Guðrúnu iðjuþjálfa. Jóhann hefur samband við Guðrúnu og þau ræða og greina hvernig aðstoðinni við Jóhann er háttað. Guðrún og Jóhann sjá svo um að þjálfa aðstoðarmenn hans, með rétta líkamsbeitingu þeirra, vinnuvistfræði og þarfir Jóhanns í huga. Allt er þetta háð samþykki verkstjórnanda og stundum með aðkomu aðstoðarverkstjórnanda.
Pálína og aðstoðarkonur hennar þurfa þjálfun í brunavörnum og skyndihjálp. Þær vilja ekki fara á námskeið sem þegar er til en vilja skipuleggja nýtt námskeið sjálfar. Pálína ræðir við ráðgjafa sinn hjá NPA miðstöðinni til að komast að því hvernig unnt væri framkvæma það. Ráðgjafinn veit til þess að tveir aðrir verkstjórnendur gætu haft áhuga á að halda námskeið um sama efni og tengir verkstjórnendurna saman. Pálína og tveir aðrir verkstjórnendur skipuleggja námskeiðið saman með ráðgjafa miðstöðvarinnar.
Vinnuslys eiga sér stað þegar aðstoðarfólk slasar sig við vinnu á meðan það er á vakt eða á beinni leið til eða frá vinnu. Vinnuslys geta einnig verið fólgin í því að aðstoðarfólki líði svo illa vegna vinnu að viðkomandi veikist af því.
Í alvarlegum tilvikum hringir þú á sjúkrabíl og eftir atvikum lögreglu í númerið 112.
Þegar upp koma vinnuslys skaltu um leið og þú færð tækifæri til hringja í ráðgjafa þinn hjá NPA miðstöðinni. Það er mjög mikilvægt að gera það um leið og þú getur eftir að vinnuslys hefur átt sér stað. Starfsfólk úr NPA miðstöðinni mun svo ræða við aðstoðarmanneskjuna sem hefur slasast og tilkynna slysið til Vinnueftirlitsins, eins og vinnuveitendum ber skylda til.
Ef rekja má ástæður slyssins til vinnuumhverfis, fer ráðgjafi þinn hjá NPA miðstöðinni, með þér í gegnum hvað þú getur gert til að koma í veg fyrir eða draga úr líkum á að slys endurtaki sig.
Í sumum tilvikum þarf að láta allt aðstoðarfólk vita af slysinu, upplýsa það um þá áhættu sem felst í tilteknum aðstæðum og hvaða ráðstafanir þú hefur gert til að takmarka þá áhættu. Til dæmis getur verið að það þurfi héðan í frá að vinna verkin með öðrum hætti eða að aðstoðarfólkið þurfi tiltekna þjálfun. Þú ákveður hvernig þessum upplýsingum er komið á framfæri við aðstoðarfólkið.
Næstum slys er atburður sem hefði geta leitt til vinnuslyss, en gerði það ekki. Næstum slys er vísbending um að hætta sé til staðar í vinnuumhverfinu. Slys og óhöpp hafa oft sömu orsök. Næstum slys gefur þér því tækifæri til að bæta vinnuumhverfið fyrir aðstoðarfólkið þitt.
Ef atvikið er minna alvarlegt getur þu tekið það upp í árlegri yfirferð og útfærslu áhættumats. Ef það er hætta á að atburðurinn endurtaki sig verður þú að bregðast strax við.
Alvarlegt atvik er atburður sem hefði getað verulega ógnað lífi og heilsu aðstoðarmanneskju. Þú verður alltaf að tilkynna alvarlegt atvik til NPA miðstöðvarinnar eins fljótt og þú getur.
Ef slys hefur næstum því átt sér stað, hvort sem þú varðst vitni að því eða að aðstoðarmanneskja hafi sagt þér frá því, þá skaltu hafa samband við þinn ráðgjafa sem allra fyrst. Í samvinnu við ráðgjafa þinn ferðu í gegnum það sem hægt er að breyta til að koma í veg fyrir að svipað atvik endurtaki sig. Ef atvikið er alvarlegt tilkynnir NPA miðstöðin það til Vinnueftirlitsins.