Þegar þú nýtir þér NPA miðstöðina sem umsýsluaðila er það samt sem áður ávallt þú sjálf/ur/t sem ákveður hver vinnur fyrir þig. Til þess að sinna hlutverki þínu sem verkstjórnandi og tryggja gott samband við aðstoðarfólkið þitt ert þú ávallt ábyrg/ur/t fyrir ráðningarferlinu. Þú getur fengið aðstoð við þetta ferli frá jafningja hjá NPA miðstöðinni eða ráðgjafa.
Þetta hljómar kannski eins og mikið mál, en í rauninni er þetta sjaldnast eins flókið og það hljómar og lærist með reynslunni. Hjá NPA miðstöðinni ert þú verkstjórnandinn. Þess vegna getur enginn annar tekið ákvörðun um hver vinnur fyrir þig. NPA miðstöðin er hinsvegar vinnuveitandinn og launagreiðandi aðstoðarfólksins og útvegar m.a. form fyrir ráðningarsamninga. Lestu nánar um þetta undir fyrirsögninni „Ráðningarform“. Ráðningarsamningur hjá NPA miðstöðinni er ávallt undirritaður af verkstjórnanda (stundum aðstoðarverkstjórnanda), aðstoðarmanneskju og NPA miðstöðinni sem umsýsluaðila.
Á fyrstu mánuðum þínum hjá NPA miðstöðinni munt þú fá stuðning frá ráðgjöfum miðstöðvarinnar til að læra á ráðningarferlið og hvernig það gengur fyrir sig. Stuðningurinn getur falist í því hvernig þú skrifar auglýsingu, hvar þú getur auglýst og hvernig á að taka atvinnuviðtal o.s.frv.
Þú færð jafnframt stuðning og kennslu við að nota nauðsynleg hjálparforrit í þessu ferli. Sá stuðningur getur til að mynda falist í því hvernig þú getur nýtt auglýsingavefsíðuna Alfreð, tíma- og vaktaskráningarforritið Tímon og Salesforce sem er þjónustukerfi sem NPA miðstöðin notar til að halda utan um þjónustuna við þig. Kannski vilt þú nota önnur hjálpartæki og tól til að halda utan um þína aðstoð og halda utan um þínar auglýsingar, en ráðgjafar miðstöðvarinnar geta aðstoðað þig við að kynna þér hjálpleg forrit og sniðmát sem þú getur notað og henta þér.
Þegar þú hefur prófað þig áfram í einhvern tíma ættir þú að hafa lært nægjanlega vel inn á ráðningarferlið til að líða vel með að halda utan um og annast allt ferlið sjálf/ur/t, frá auglýsingum til ráðningarsamninga. Það getur verið góð tilfinning að sjá um þessa hluti sjálf/ur/t og þarf alls ekki að vera svo flókið. Flestir verkstjórnendur læra fljótt að stjórna ferlinu og líkar það vel.
Þú getur alltaf leitað til ráðgjafa hjá NPA miðstöðinni ef þú lendir í vandræðum eða þarft stuðning og/eða aðstoð.
Gott er að hafa eins skýra sýn og mögulegt er um það hvernig aðstoð þú þarft og hvers þú leitar eftir í fari þinnar aðstoðarmanneskju. Það getur auðveldað þér að velja á milli umsækjenda. Þú ættir að velja aðstoðarmanneskju út frá því hvað þér finnst skipta máli varðandi aðstoðina sem þú þarft og það er mikilvægt að hafa þessi atriði í huga þegar þú ræður nýtt aðstoðarfólk til starfa. Lestu meira um almennar kröfur við val á aðstoðarfólki í kaflanum „Þegar ég hef tekið ákvörðun“.
Hugmyndir okkar um og viðhorf til aðstoðar og aðstoðarfólks er oft undir áhrifum frá öðru fólki og fjölmiðlum. Þess vegna erum við stundum með fyrirfram ákveðna mynd af því hvernig aðstoðarmanneskju við erum að leita að, sem samræmist þó ekki endilega þeirri aðstoðarmanneskju sem myndi virka best fyrir okkur sjálf. Þetta er eitt af því sem lærist með tímanum.
Þú þarft aðstoðarmanneskju sem passar við þig sem einstakling og þitt líf. Hugsaðu um hvernig fólki þér finnst best að vinna með og hvernig fólki þykir best að vinna með þér.
Það er ólíklegt að þú finnir einhvern sem þekkir vel inn á þig strax frá byrjun. Í atvinnuviðtalinu mættir þú gjarnan íhuga hvort líklegt sé að viðkomandi muni læra inn á þig og virða hvernig þú vilt hafa hlutina.
Sumir telja að það hljóti að vera betra ef aðstoðarfólk hefur lokið einhverri þjálfun eða sé með menntun, til dæmis í umönnun, persónulegri aðstoð, fötlunarfræði eða hjúkrun, en það þarf þó ekki endilega að vera rétt. Það sem skiptir mestu máli er að þitt aðstoðarfólk skilji þig og að það hafi réttu þekkinguna fyrir þá aðstoð sem þú þarft á að halda.
Ef aðstoðarfólkið þitt þarf á einhverri sérstakri þekkingu að halda, þarf þjálfun eða fræðslu, getur þú tryggt að það fái þá fræðslu sem nauðsynleg er til þess að það geti unnið starf sitt með góðu móti. Það getur þú til dæmis gert í gegnum námskeið hjá NPA miðstöðinni.
Margir verkstjórnendur hjá NPA miðstöðinni vilja helst ekki ráða fólk sem hefur starfað á stofnunum eða í stofnanaþjónustu. Reynsla margra verkstjórnenda er sú að auðveldara er fyrir aðstoðarfólk, sem hefur ekki þannig bakgrunn, að skilja að persónuleg aðstoð er ekki umönnun eða aðhlynning, heldur notendastýrð persónuleg aðstoð.
Það gæti verið auðveldara fyrir þig að vera þú sjálf/ur/t og gera það sem þú vilt ef aðstoðarfólkið þitt hefur reynslu eða áhugamál sem henta þér. Ef þú hefur áhuga á útiveru væri betra að hafa aðstoðarmanneskju sem hefur gaman af því að vera úti. Ef þú hefur áhuga á reiðmennsku verður það auðveldara ef aðstoðarmanneskjan þín er ekki hrædd við hesta. Þú getur haft nokkrar mismunandi aðstoðarmanneskjur með mismunandi færni og eiginleika. Það mikilvæga er að huga að því hvaða færni aðstoðarmanneskjan ætti að hafa fyrir þá aðstoð sem þú þarfnast við mismunandi aðstæður og athafnir. Aðstoðina skipuleggur þú svo í samræmi við það.
Þegar þú hefur hugsað um það sem þú þarft, er kominn tími til að skrifa atvinnuauglýsinguna þína.
Lágmarksaldur aðstoðarfólks í NPA er 18 ár, en almennt skal miða við að ráða ekki yngra aðstoðarfólk en 20 ára.
Samkvæmt lögunum getur þú aðeins ráðið aðstoðarmanneskju sem er búsett innan EES svæðisins og á þar af leiðandi rétt á að starfa á Íslandi. Hér getur þú séð lista yfir þau lönd sem eru innan EES. Þú getur ráðið aðstoðarmanneskju sem er búsett utan EES, en þá þurfa sérstakar aðstæður að eiga við og sækja þarf um atvinnu- og dvalarleyfi fyrir viðkomandi aðila. Það getur hinsvegar verið flókið og erfitt að útvega leyfi fyrir útlendinga sem búsettir eru utan EES til að starfa hér á landi. Ef þú þarft að ráða aðstoðarmanneskju tímabundið á meðan þú ert erlendis, til dæmis vegna ferðalaga, getur þú haft samband við ráðgjafa þinn hjá NPA miðstöðinni til að fá upplýsingar og ráðleggingar varðandi það.
Erlendir ríkisborgarar sem eru búsettir hér á landi verða að hafa kennitölu til að geta starfað í landinu og þegið laun. Þeir geta sótt um kennitölu hjá Þjóðskrá Íslands. Einnig er mikilvægt að ganga úr skugga um að viðkomandi aðili hafi atvinnuleyfi til að starfa hér á landi. Að ráða inn manneskju sem ekki hefur atvinnuleyfi er alvarlegt mál og algerlega óheimilt.
Ekki má gera ráð fyrir því að aðstoðarmanneskja sem ekki er með kennitölu geti fengið greidd laun. Mikilvægt er að brýna fyrir erlendu aðstoðarfólki að útvega kennitölu áður en það hefur störf.
Aðstoðarfólkið þitt verður að geta sinnt starfi sínu þannig að öryggi þitt og gæði aðstoðarinnar sé tryggt. Við mannfólkið erum misjöfn eftir því sem við eldumst og engin efri mörk eru fyrir ráðningar aðstoðarfólks í NPA. Það er undir þér komið að meta getu þíns aðstoðarfólks til að sinna starfi sínu, þar á meðal með tilliti til aldurs, líkamlegrar getu eða heilsufars.
Samkvæmt lögum er óheimilt að ráða í störf aðstoðarfólks, einstaklinga sem hlotið hafa refsidóma fyrir tiltekin ofbeldisbrot. Um er að ræða kynferðisbrot, manndráp og líkamsárás. Leggja þarf sérstakt mat á hæfni þeirra sem hlotið hafa aðra refsidóma til að gegna starfi aðstoðarfólks í NPA.
Áður en þú gengur frá ráðningu aðstoðarmanneskju skaltu ganga úr skugga um að viðkomandi sé ekki á sakaskrá lögreglu. Yfirleitt nægir að spyrja en þú getur óskað eftir því að viðkomandi einstaklingur leggi fram sérstakt sakavottorð. Þau má nálgast hjá sýslumanni þar sem viðkomandi aðstoðarmanneskja býr en einnig á mínum síðum á vefsvæðinu Ísland.is.
Sum sveitarfélög eru með reglur um ráðningu nákominna sem aðstoðarfólk. Ef reglur sveitarfélagsins heimila ráðningu nákominna er mikilvægt fyrir þig að vera meðvituð/aður/að um að annars konar samband er á milli þín og aðstoðarmanneskju sem er tengd fjölskyldu- eða vinaböndum en þeirri sem er það ekki. Gott er að ræða við aðra NPA notendur um reynslu einslega eða í gegnum jafningjafræðslu og ráðgjafa NPA miðstöðvarinnar um kosti, ókosti og áskoranir í þessu sambandi. Það er til dæmis erfiðara að segja foreldri eða systkini hvernig þú vilt að það eldi eða brjóti saman þvottinn eða hvernig þú vilt að það sé í félagslegum aðstæðum. Þú ert einnig ólíkleg/ur/t til að hegða þér eins við ýmsar aðstæður með ættingja sem aðstoðarmanneskju en með aðstoðarmanneskju sem þú hefur valið sérstaklega úr hópi umsækjenda.
Viðmið NPA miðstöðvarinnar í þessum efnum er að mikilvægast sé að þitt val eigi að ráða því hver vinnur fyrir þig. Ef þú velur að ráða nákominn sem aðstoðarmanneskju, ætti enginn að standa í vegi fyrir því. Mikilvægt er að fjölskyldumeðlimir setji ekki þrýsting á þig um að ráða frekar fjölskyldumeðlimi en aðra. NPA miðstöðin hefur þó sett það viðmið að fjölskyldumeðlimir gegni sem nemur að hámarki einu stöðugildi.
Þegar þú ert ákveðin/nn/ð í að ráða inn aðila í aðstoðarmannahópinn þinn þá fyllir þú út ráðningarform á heimasíðu NPA miðstöðvarinnar, https://npa.is/storf/starf-form. Hérna fyllir þú inn allar viðeigandi upplýsingar um nýju aðstoðarmanneskjuna og starfið sem viðkomandi er ráðin/nn/ð í. Formið býður uppá nokkra mögulega varðandi ráðningarfyrirkomulagið.
Notaðu þetta ráðningarform fyrir aðstoðarfólk sem vinnur reglulega samkvæmt vaktaplani, í ótilgreindan tíma. Það skiptir ekki máli hvort aðstoðarmanneskjan vinnur í fullu starfi eða aðeins nokkra tíma í mánuði (hlutastarf). Það sem ræður því hvort nota eigi þetta ráðningarform er að vinnan er ótímabundin, regluleg og samkvæmt vaktaplani.
Notaðu þetta ráðningarform fyrir aðstoðarfólk sem vinnur reglulega samkvæmt vaktaplani, í afmarkaðan tíma. Það sem ræður því hvort nota eigi þetta ráðningarform er að vinnan er tímabundin, regluleg og samkvæmt vaktaplani. Sömu sjónarmið eiga við um þetta ráðningarform og um ótímabundna ráðningu, nema að þú skráir upphafstíma ráðningar í ráðningarsamninginn og lok ráðningartímans.
Almenna reglan er sú að ráðningarsamningar eigi að kveða á um ákveðið starfshlutfall. Notaðu þetta ráðningarform því aðeins fyrir aðstoðarfólk sem vill hafa aukinn sveigjanleika varðandi sínar vaktir, eða fyrir aðstæður þar sem aðstoðarfólk vill ekki skuldbinda sig til að vinna tiltekið starfshlutfall. Aðstoðarfólk í afleysingum vinnur aðeins þegar það vill vinna og þá aðeins þá tíma sem það raunverulega vinnur. Aðstoðarfólk í afleysingum á ekki rétt á því að heimta meiri vinnu en þú getur boðið, en þarf heldur ekki að vinna þegar það vill ekki vinna.
Ef aðstoðarmanneskja þín byrjar að vinna reglulegar vaktir er æskilegt að breyta ráðningarfyrirkomulaginu í fastráðningu þar sem kveðið er á um ákveðið starfshlutfall. Þetta er mikilvægt til að unnt sé að tryggja réttindi aðstoðarmanneskjunnar varðandi orlofsréttindi, veikindarétt og uppsagnarfrest.
Þú mátt ekki ráða inn aðstoðarfólk sem verktaka og það er heldur ekki valkostur fyrir aðstoðarfólk að fá greiddar verktakagreiðslur vegna starfa sinna. Ástæðan er sú að ráðningarsamband milli launþega og atvinnurekanda er alltaf háð eðli og aðstæðum, ekki hvað það er kallað.
Réttindi og skyldur aðila eru afar ólíkar eftir því hvort aðstoðarmanneskja er launþegi eða verktaki. Þannig myndi aðstoðarmanneskja sem starfar sem verktaki ekki njóta veikindaréttar eða orlofsréttinda. Samkvæmt lögum og kjarasamningi má ekki semja um lakari kjör eða réttindi en þau sem starfsfólk á rétt á og þá má einnig ekki semja frá sér tiltekin réttindi sem launþegum eru áskilin samkvæmt lögum eða kjarasamningum. Það skiptir því ekki máli um hvað samið er, því eðli ráðningarsambandsins og réttindin sem ráðningasambandinu fylgja eiga ávallt að vera tryggð. Þá ganga lögin og kjarasamningurinn framar því samkomulagi sem er um ráðninguna.
Þetta þýðir ef þú ræður aðstoðarmanneskju sem verktaka, greiðir henni verktakalaun og hún veikist, þá á viðkomandi samt sem áður rétt á sínum veikindarétti. Viðkomandi aðstoðarmanneskja ætti að geta sótt þann rétt, þar sem henni er tryggður slíkur réttur samkvæmt lögum og kjarasamningi. Í þessu sambandi skiptir ekki máli hvort við ráðningu hafi verið gert samkomulag um að viðkomandi einstaklingur sé aðeins verktaki og njóti ekki fyrrgreindra réttinda og fái í raun hærri laun fyrir vikið. Réttindin eru óumsemjanleg og ófrávíkjanleg.
Af þessum ástæðum verður allt aðstoðarfólkið þitt að vera ráðið sem launþegar og gera verður ráðningarsamning við allt aðstoðarfólk. Rétt er einnig að geta þess að áskilnaður er um það af hálfu sveitarfélaga, ráðuneytisins og stéttarfélaga að allt aðstoðarfólk sé ráðið sem launþegar.
Atvinnuauglýsing á að laða réttan aðila að því að sækja um starfið. Auglýsingin sjálf á að gefa mynd af því hvernig starfið er og eftir hverju þú ert að leita. Auglýsingin þín á að vera eins og óskalisti yfir það sem þú vilt hafa í fari aðstoðarmanneskju. Líkurnar á að finna „drauma aðstoðarmanneskjuna“ eru hinsvegar litlar. Mjög sjaldgæft er að umsækjendur uppfylli allar kröfur sem þú setur. Þú verður því að hugsa um hvaða óskir þínar skipta mestu máli fyrir þig. Lestu meira um þetta undir kaflanum „Eftir hverju er ég að leita?“
Auglýsingin á einnig að veita nákvæmar upplýsingar um starfið sjálft. Ert þú að leita að einhverjum í fullt starf eða í hlutastarf? Hvert er ráðningarformið? Fer aðstoðin fram á daginn, kvöldin, um helgar eða allt í senn? Er boðið upp á bakvaktir? Auglýsingin á ekki að vera of löng og ætti að svara þessum spurningum:
Taktu fram í auglýsingunni að umsækjendur geta þurft að leggja fram sakarvottorð. Taktu einnig fram að umsækjendur undir 18 ára aldri mega ekki sækja um starfið.
Taktu fram hvernig sótt er um starfið og hvenær umsóknarfrestur rennur út. Oft er sótt um með því að senda þér tölvupóst eða í gegnum ráðningarsíður eins og Alfred.is. Mikilvægt er fyrir þig að hafa í huga að þú þarft að gæta að reglum um trúnað við meðhöndlun umsóknargagna.
Ef þú vilt veita umsækjendum um starf hjá þér frekari upplýsingar um starfið almennt og hugmyndafræðina um sjálfstætt líf, er þér velkomið að hafa samband við NPA miðstöðina og fá bæklinga sem þú getur afhent umsækjendum í atvinnuviðtölum. Ráðgjafar NPA miðstöðvarinnar eru þér einnig innan handar varðandi að útbúa auglýsingar og svara spurningum þínum varðandi meðferð trúnaðargagna í umsóknarferlinu.
Flestir verkstjórnendur vilja birta auglýsinguna sína sem víðast. Ráðgjafi þinn hjá NPA miðstöðinni getur aðstoðað þig við að birta auglýsinguna á vef Alfred.is, á vef NPA miðstöðvarinnar og einnig getur NPA miðstöðin deilt auglýsingunni á Facebook síðu sinni. Þá er jafnframt hægt að skrá auglýsingu á vef Vinnumálastofnunar.
Sumir vilja birta auglýsingar í dagblöðum eða tímaritum. Yfirleitt fylgir slíkum birtingum einhver kostnaður og í sumum tilvikum nokkuð mikill kostnaður. Reynsla félagsfólks NPA miðstöðvarinnar er sú að dýrar auglýsingar í blöðum skila ekki endilega meiri árangri. NPA miðstöðin getur í einhverjum tilvikum birt auglýsingar fyrir verkstjórnendur á þessum stöðum og þá sérstaklega í bæjarblöðum úti á landsbyggðinni.
Þú getur haft samband við Vinnumálastofnun til að athuga hvort fólk í atvinnuleit sé þar á skrá sem gæti uppfyllt kröfur þínar. Símanúmerið hjá Vinnumálastofnun er 515 4800, einnig er hægt að senda tölvupóst á stofnunina á postur@vmst.is.
Í fyrsta lagi þarft þú að taka ákvörðun um hvort þú vilt taka eitt eða fleiri viðtöl við umsækjendur. Sumir verkstjórnendur vilja taka fyrstu viðtölin í gegnum síma eða senda spurningar með tölvupósti. Aðrir verkstjórnendur sleppa því og taka aðeins viðtöl augliti til auglitis.
Byrjaðu á því að fara yfir allar umsóknirnar. Grisjaðu út einstaklinga sem uppfylla ekki lágmarkskröfur þínar. Það getur til dæmis verið fólk sem getur ekki unnið á þeim tímum sem þú ert að leita að, fólk sem er viðkvæmt fyrir eða með ofnæmi fyrir einhverju í kringum þig, fólk sem býr of langt í burtu eða hefur ekki þá þekkingu eða menntun sem þú ert að leita að. Hafðu samband við þá umsækjendur og þakkaðu þeim fyrir áhugann.
Núna hefur þú þynnt hópinn talsvert og eftir standa þeir einstaklingar sem koma til greina í starfið og þú getur boðað í viðtal. Við val á því hverja þú boðar í viðtal ættir þú að horfa til þeirra sem þér þykja henta best í starfið út frá umsóknunum. Allir sem þú hefur samband við ættu þannig að uppfylla lágmarkskröfur þínar. Verkstjórnendur hafa mismunandi áherslur þegar kemur að því að velja úr umsækjendum og þú ættir að hugsa þig vel um hvað skiptir þig máli. Sumir leggja til dæmis áherslu á þá umsækjendur sem virðast hafa sýnt mestan skilning á þeim þörfum sem þú hefur fyrir aðstoð í umsókninni eða umsóknargögnunum.
Þegar þú hefur valið úr hópi umsækjenda þá einstaklinga sem koma til greina í starfið skaltu hafa samband við þá aðila og bjóða þeim í viðtal. Margir verkstjórnendur vilja ekki bjóða fólki heim til sín í atvinnuviðtöl og kjósa því að nýta sér hlutlausan vettvang, til dæmis kaffihús til að framkvæma viðtalið. NPA miðstöðin býður einnig upp á góða aðstöðu fyrir félagsfólk til að taka atvinnuviðtöl. Þar getur þú boðið upp á kaffi og hressingu, prentað út skjöl og jafnvel haft ráðgjafa þér við hlið til stuðnings.
Undirbúðu viðtalið vel. Fyrst skaltu ákveða hversu langan tíma viðtöl við umsækjendur ættu að vera. Algengt er að viðtöl séu á bilinu 30 til 60 mínútur að lengd. Undirbúðu þig einnig vel undir hvaða spurningar umsækjendur geta haft varðandi starfið.
Byrjaðu viðtalið á því að kynna þig og segja frá starfinu. Segðu frá því hvernig vinnutíminn mun koma til með að líta út. Lýstu verkefnunum svo umsækjandinn geti fengið tækifæri til þess að ákveða hvort honum finnst starfið áhugavert. Lýstu því næst hvernig persónulegri aðstoð hjá NPA miðstöðinni er háttað. Þú getur enn fremur afhent umsækjendum bækling frá NPA miðstöðinni.
Notaðu opnar spurningar í viðtalinu. Þú færð almennt meiri upplýsingar frá umsækjendum með þeim hætti en ef þú spyrð bara spurninga sem er hægt að svara með „já“ eða „nei“. Hugsaðu um tilgang spurningarinnar sem þú spyrð og fylgdu eftir mikilvægum svörum, t.d. með af hverju og hvernig. Þú ættir aðeins að spyrja spurninga sem eru viðeigandi fyrir aðstoðina við þig og eru ekki móðgandi eða ýta undir mismunun.
Endaðu viðtalið á því að segja umsækjandanum hvað gerist í framhaldinu. Segðu að þú hafir samband við alla umsækjendur, óháð því hvort þeir hafi fengið starfið, og innan hvaða tíma þú munt láta heyra frá þér.
Hér eru tillögur að dæmigerðum spurningum sem þú getur spurt. Veldu þau atriði sem skipta þig máli.
Hér eru tillögur að dæmigerðum spurningum sem þú getur spurt. Veldu þau atriði sem skipta þig máli.
Skoðaðu vel svörin sem umsækjendur gefa í viðtölunum. Hvað skiptir þig mestu máli? Hver fannst þér passa best við þig og starfið? Hér verður þú að meta hvaða eiginleikar og þættir vega þyngst í fari aðstoðarfólksins þíns. Það lærir þú að koma auga á með tímanum.
Þegar þú hefur tekið ákvörðun um að bjóða einhverjum starfið er gott að ræða fyrst við umsagnaraðila eða meðmælendur. Markmiðið er að fá viðbótarupplýsingar um umsækjandann við þær sem þú fékkst í viðtalinu og fá aðra hlið á viðkomandi. Spurðu hversu lengi umsagnaraðilinn og umsækjandinn hafa starfað saman, í tengslum við hvaða störf og viðmót viðkomandi til umsækjandans. Ekki hika við að spyrja um helstu styrkleika og veikleika umsækjandans. Ef eitthvað er sérstaklega mikilvægt fyrir þig, einhverjir eiginleikar, þekking eða reynsla sem skiptir máli í starfinu skalt þú endilega spyrja umsagnaraðilann um það. Að lokum má til dæmis spyrja umsagnaraðila hvort viðkomandi myndi vilja fá umsækjandann aftur til starfa.
Mikilvægt er að muna að einstaklingar sem hlotið hafa refsidóma fyrir tiltekin ofbeldisbrot er óheimilt að starfa sem NPA aðstoðarfólk. Lestu meira um þetta undir kaflanum „Óheimilt er að ráða einstaklinga sem hlotið hafa refsidóma.“
Þú getur sett það sem skilyrði fyrir ráðningu í starfið, að umsækjandi leggi fram sakavottorð. Það er hægt að nálgast hjá Sýslumanni eða á Mínum síðum inni á vefsvæðinu island.is.
Ráðningarsamningar NPA miðstöðvarinnar gera einnig ráð fyrir því að umsækjendur haki annað hvort já eða nei í reit sem er merktur „Ert þú með hreint sakarvottorð?“. Ef viðkomandi er ekki með hreint sakarvottorð getur þú ákveðið að kalla eftir því.
Athugaðu að það skiptir ekki máli í þessu sambandi hvort forráðamaður þinn eða ættingi vinni fyrir þig, þeir sem hlotið hafa þessa tilteknu refsidóma mega ekki samkvæmt lögum starfa sem NPA aðstoðarfólk.
NPA miðstöðin er með kjarasamning við Eflingu og Starfsgreinasambandið (SGS) og eru launaþrep aðstoðarfólks í fjórum þrepum: Byrjunarlaun, 1. árs laun, 3. árs laun, 5. árs laun og 9. árs laun. Laun aðstoðarfólks ákvarðast og hækka eftir því sem það vinnur lengur hjá þér og skv. nánari ákvæðum í kjarasamningi.
Hjá NPA miðstöðinni er lögð áhersla á jöfn laun fyrir sömu vinnu, að laun séu sanngjörn og að aðstoðarfólki sé ekki mismunað með ósanngjörnum hætti. Laun verða að vera samkeppnishæf við sambærileg störf á almennum vinnumarkaði svo verkstjórnendur geti laðað til sín og haldið í hæft aðstoðarfólk.
NPA miðstöðin er með sérstakan kjarasamning við verkalýðsfélagið Eflingu og Starfsgreinasambandið (SGS), en þau félög fara með réttindi NPA aðstoðarfólks. Við semjum við Eflingu/SGS um laun og önnur kjör sem eiga að gilda fyrir aðstoðarfólk og er útkoman kjarasamningur sem kveður á um laun, vinnutíma og réttindi aðstoðarfólks. Ekki má semja um lakari kjör eða réttindi en kjarasamningurinn kveður á um.
Við endurnýjun kjarasamninga NPA miðstöðvarinnar við Eflingu/SGS fylgja launahækkanir fyrir aðstoðarfólk yfirleitt sömu hækkun og gildir í öðrum sambærilegum störfum á almennum vinnumarkaði. Yfirleitt gilda kjarasamningar í nokkur ár. Þú þarft ekki að gera neitt vegna þessara hækkana, en NPA miðstöðin sendir tilkynningar til verkstjórnenda áður en kemur að launahækkunum.
Þú getur skoðað gildandi kjarasamning okkar við Eflingu með því að smella hér og sérkjarasamning um hvíldarvaktir með því að smella hér.
Það skiptir máli að þú sért meðvituð/aður/að um þá fjárhæð sem fylgir NPA samningi þínum og ætluð er til að standa straum af launakostnaði NPA aðstoðarfólks. Á undanförnum árum hefur NPA miðstöðin barist fyrir því að sveitarfélög hækki sín framlög til launakostnaðar NPA aðstoðarfólks því framlögin hafa ekki verið í samræmi við launakostnað í kjarasamningum. Það þýðir að notendur hafa um árabil ekki getað notað alla tímana sína í aðstoð, þar sem launakostnaður fyrir hverja vinnustund er hærri en framlagið sem sveitarfélagið greiðir með hverri vinnustund að meðaltali.
Hinsvegar eru ekki öll sveitarfélög að miða sín framlög til launakostnaðar aðstoðarfólks við kjarasamninga þeirra og því er mikilvægt fyrir þig að vera meðvituð/aður/að um það fjármagn sem þú hefur úr að spila með tilliti til raunverulegs launakostnaðar aðstoðarfólks hjá þér.
Þetta getur verið sérstaklega snúið hjá þeim sem eru ekki með sólarhringssamninga. Þeir verkstjórnendur sem skipuleggja sína aðstoð einkum á kvöldin og um helgar eru með dýrari vinnustundir en þeir sem skipuleggja vinnustundir aðstoðarfólks einkum yfir dagvinnutíma. Það er vegna þess að launakostnaður á kvöldin og um helgar er dýrari en launakostnaður yfir daginn á virkum dögum. Þess vegna geta þeir sem skipuleggja vinnustundir síns aðstoðarfólks einkum á kvöldin og um helgar skipulagt færri vinnustundir en þeir sem skipuleggja sína aðstoð á daginn á virkum dögum, þó þessir verkstjórnendur fái sama fjárframlagið frá sveitarfélagi sínu og séu með sömu þjónustuþörf í vinnustundafjölda.
Ef þú vilt fá aðstoð við að setja fram áætlun og ákveða hversu marga tíma þú getur skipulagt í þinni aðstoð með hliðsjón af fjárframlagi sveitarfélagsins, hafðu þá samband við þinn ráðgjafa hjá NPA miðstöðinni.
Hjá NPA miðstöðinni erum við með fimm launaþrep fyrir aðstoðarfólk. Almennt þegar fólk er ráðið þá byrjar það í byrjunarlaunaþrepi. Eftir eitt ár í starfi færist það í 1. árs launaþrep. Eftir þrjú ár í starfi færist það í 3. árs launaþrep, eftir fimm ár í starfi í 5. árs launaþrep og ef aðstoðarmaður hefur unnið hjá þér í 9. ár færist viðkomandi upp í 9. árs þrep.
Allir sem eru yfir 22 ára byrja sjálfkrafa í 1. árs launaþrepi.
Þegar þú ræður aðstoðarmanneskju þarft þú að spyrja hvort viðkomandi hafi reynslu úr sambærilegum störfum. Ef viðkomandi hefur reynslu þarf að meta reynsluna. Aðstoðarmanneskja sem hefur 3 ára starfsreynslu úr sömu starfsgrein, þarf að fara í 3. árs launaþrep o.s.frv.
Ef semja á um sérstakar aðrar greiðslur eða annað sérstakt fyrirkomulag verður að vera kveðið á um það í kjarasamningi og fá samþykki fyrir því frá NPA miðstöðinni, enda hafi þá verið gerð áætlun um hvernig unnt sé að standa undir þeim launakostnaði.
Ráðgjafar hjá NPA miðstöðinni geta aðstoðað þig við að leggja mat á fyrri reynslu aðstoðarfólks til að finna út rétt launaþrep.
Launaflokkarnir eru stilltir af fyrir störf aðstoðarfólks hjá NPA miðstöðinni. NPA miðstöðin er samvinnufélag sem byggir á samstöðu. Við erum með kjarasamning sem kveður á um laun aðstoðarfólks og við fáum framlög frá sveitarfélögum í samræmi við kjarasamninginn (í mörgum tilfellum lægra framlag en það). Með því að fylgja launatöflunni erum við að skapa aðstæður þar sem verkstjórnendur eiga að geta skipulagt jafn margar vinnustundir aðstoðarfólks og NPA samningar þeirra kveða á um.
Með því að fara út fyrir launatöflurnar ert þú að skapa hættu á því að aðstoðin við þig gangi ekki upp. Þá er einnig hætta á að ýmis réttindi stofnist sem þú getur ekki staðið við miðað við fjárhag þinn í NPA.
Við viljum einnig stuðla að launajafnrétti meðal aðstoðarfólks þannig að aðstoðarfólk fái sömu laun fyrir sömu vinnu.
Í samvinnufélagi vinnum við saman að því að framkvæma okkar aðstoð og það þýðir að við erum með samræmdar launatöflur.
Nei, allir sem eru ráðnir sem aðstoðarmenn þínir eiga að vera launþegar. Ástæðan er sú að atvinnurekendum er óheimilt að greiða verkalaun fyrir vinnu sem er í rauninni launþegastarf. Það er þannig í raun ólögmætt að greiða starfsmanni verktakagreiðslur sem er í rauninni að starfa sem launþegi. Lestu meira um þetta undir kaflanum „Verktakar“.
Í algerum undantekningartilvikum getur fólk óskað eftir því að fá greitt samkvæmt reikningi. Þetta á við þegar starfsmaður vinnur eitthvað tiltekið verkefni fyrir þig eða leysir af í mjög stuttan tíma. Starfsmaður sem starfar hjá þér í langan tíma eða fær reglulega greitt, þó það sé lítið, á þó ávallt að vera launþegi ekki verktaki.
Þú mátt hinsvegar greiða fyrir þjónustu starfsmannafyrirtækja ef þú vilt nýta þér það, til dæmis á ferðalögum erlendis eða í neyðartilvikum. Þær eru hins vegar kostnaðarsamar og þú hefur takmarkað verkstjórnarvald yfir því fólki sem aðstoðar þig.
Ræddu við ráðgjafa hjá NPA miðstöðinni um hvaða áhrif það getur haft á fjárhag þinn í NPA að ráða starfsmann frá starfsmannafyrirtæki til lengri eða skemmri tíma.
Laun hækka sjálfkrafa samkvæmt kjarasamningum, yfirleitt einu sinni á ári. Þú þarft ekki að gera neitt sjálf/ur/t því NPA miðstöðin sér um að uppfæra launin. Þú og aðstoðarfólkið þitt eigið að fá tilkynningu um hækkanirnar fyrirfram.
Launafulltrúi hjá NPA miðstöðinni sér einnig um að fylgjast með starfsaldri þíns aðstoðarfólks og sér til þess að færa aðstoðarfólkið milli launaþrepa þegar það hefur náð tilteknum starfsaldri hjá þér.
Ef þú hefur fyllt út ráðningarform fyrir nýtt aðstoðarfólk á heimasíðu NPA miðstöðvarinnar útbýr ráðgjafi þinn rafrænan ráðningarsamning fyrir þig og aðstoðarmanneskjuna til undirritunar. Rafræni ráðningarsamningurinn ætti að vera tilbúinn til undirritunar innan við viku eftir að rafræna formið er útbúið.
Rafræni ráðningarsamningurinn er sendur þér í tölvupósti í gegnum Dokobit þar sem þú getur farið yfir samninginn og gengið úr skugga um að allt sé rétt. Ef þú ert sátt/ur þá skrifar þú undir samninginn með rafrænum skilríkjum og þá opnast samningurinn fyrir undirritun hjá aðstoðarmanneskjunni. Þegar allir hafa undirritað skjalið telst samningurinn vera fullgildur.
Þú getur einnig fyllt út ráðningasamning sem þú prentar út. Þú getur nálgast ráðningarsamninga, bæði á íslensku og ensku, ásamt yfirlýsingum um trúnað sem aðstoðarfólk verður að skrifa undir hjá ráðgjafa þínum hjá NPA miðstöðinni.
Áður en þú skrifar undir ráðningarsamning skalt þú spyrja viðkomandi út í hvort hann/hún/hán sé með hreint sakarvottorð. Ef svo er ekki ættir þú að kalla eftir því áður en ráðningarsamningurinn er fylltur út. Þú getur einnig óskað eftir sakavottorði í öllum tilvikum. Þú og aðstoðarmanneskjan ættuð einnig að hafa farið yfir launatöfluna og vera sammála um í hvaða launaþrepi viðkomandi starfsmaður á að vera.
Þú fyllir út ráðningarsamninginn eða ráðningarformið á heimasíðu NPA miðstöðvarinnar, ef þú vilt gera rafrænan ráðningarsamning, með aðstoðarmanneskjunni. Fyrst þarf að merkja við hvort um sé að ræða nýja ráðningu eða breytingu frá fyrri ráðningu, t.d. minnkað eða aukið starfshlutfall eða úr tímabundinni ráðningu yfir í ótímabundna.
Starfsmaðurinn setur inn nafn sitt, kennitölu, heimilisfang, netfang og símanúmer á ráðningarsamninginn. Þú setur inn nafn þitt sem verkstjórnandi, kennitölu þína og heimilisfang. Ef þú ert með aðstoðarverkstjórnanda setur aðstoðarverkstjórnandi sitt nafn á samninginn.
Merkja þarf hvort verkstjórnandi sé yfir 18 ára og hvort aðstoðarmanneskja sé nákomin verkstjórnanda.
Þú fyllir út rétt starfshlutfall sem prósentuhlutfall. Setja má starfshlutfallið á litlu bili, ef vinnan er fyrirsjáanlega sveigjanleg á milli mánaða. Reikna þarf út starfshlutfallið í prósentum út frá vinnustundafjölda á mánuði þá skal deila fjölda klukkustunda sem starfsmaðurinn mun vinna í mánuði með 156, sem er fjöldi vinnustunda fyrir fullt starf og margfalda með 100. Dæmi: Aðstoðarmanneskjan mun vinna 100 vinnustundir á mánuði að meðaltali; 100 deilt með 156 gerir 0,64 og sinnum 100 gerir þá 64% starfshlutfall. Þú merkir einnig við hvort um sé að ræða ótímabundinn samning eða tímabundinn. Þá skráir þú inn tímabilið sem starfsmaðurinn vinnur.
Ef þú og aðstoðarmanneskja þín eruð sammála um það getið þið einnig hakað í „afleysingar.“ Það á þó einungis við í þeim tilvikum sem þú og aðstoðarmanneskjan viljið ekki skuldbinda ykkur í ákveðið starfshlutfall. Lestu meira um þetta undir kaflaheitinu „Afleysingar.“
Ef aðstoðarmanneskjan er með reynslu úr sömu starfsgrein þarf að tilgreina hana í samningnum. Þið hakið í rétt launaþrep og setjið inn dagsetninguna þegar starfsmanneskjan mætti á fyrstu vaktina samkvæmt þessum samningi.
Aðstoðarmanneskjan setur inn upplýsingar um bankareikning sem launin verða lögð inn á. Þá þarf að geta þess hvort aðstoðarmanneskjan vill nýta persónuafsláttinn sinn með þessari vinnu og þá hversu hátt hlutfall. Ef hún hyggst nýta allan afsláttinn hjá NPA miðstöðinni er skrifað 100% í reitinn, annars það hlutfall sem viðkomandi óskar eftir. Ef starfsmaður hyggst ekki nýta persónuafsláttinn hjá NPA miðstöðinni er sett inn 0%. Hægt er að breyta prósentuhlutfalli persónuafsláttar hvenær sem er með því að hringja í launafulltrúa NPA miðstöðvarinnar.
Neðst á ráðningarsamninginn skrifar þú undir sem verkstjórnandi eða aðstoðarverkstjórnandi þinn fyrir þína hönd.
Aftan á ráðningarsamningnum eru mikilvægar upplýsingar um meðhöndlun trúnaðargagna hjá NPA miðstöðinni. Það er mikilvægt að fara í gegnum þetta með aðstoðarmanninum. Þá er jafnframt mikilvægt að aðstoðarmanneskjan undirriti trúnaðaryfirlýsingu NPA miðstöðvarinnar. Þagnarskylda gildir samkvæmt lögum, óháð því hvort aðstoðarmanneskja skrifar undir yfirlýsinguna eða ekki, en það er gott fyrir ykkur bæði ef aðstoðarmanneskjan er meðvituð um trúnaðarskylduna.
Aðstoðarmanneskja skrifar svo undir samninginn á aftari síðunni ásamt fulltrúa frá NPA miðstöðinni.
Þegar þú og aðstoðarmanneskjan hafið fyllt út ráðningarsamning og undirritað og ráðgjafi NPA miðstöðvarinnar hefur yfirfarið og undirritað hann einnig er ráðningin orðin gild. NPA miðstöðin varðveitir ráðningarsamninga aðstoðarfólks þíns og lætur þig vita þegar þeir falla úr gildi.
Aðstoðarfólk á rétt á því að starfslýsing fyrir starfið liggi fyrir og fyrir vikið verður þú að útbúa starfslýsingu fyrir þitt aðstoðarfólk. Starfslýsing felur í sér lýsingu á þeim ábyrgðarsviðum og verkefnum sem fylgja starfi aðstoðarfólks. Mikilvægt er að það fái góða lýsingu á starfi sínu og þeim verkefnum sem í starfinu felast svo það viti til hvers sé ætlast og svo ekki komi á óvart að tiltekin verkefni séu hluti af starfinu.
Í starfslýsingu eiga að koma fram allir meginþættir starfs þannig að ljóst sé hvaða kröfur eru gerðar til aðstoðarfólks tiltekins verkstjórnanda, hvaða verkefnum aðstoðarfólkinu er ætlað að sinna og hvert sé ábyrgðarsvið þess og skyldur. Einnig er hægt að skilgreina markmið og væntingar um árangur.
Starfslýsing á ekki að vera of nákvæm og ekki fela í sér lýsingar á minni verkefnum og verkferlum. Lýsingin á ekki að vera ósveigjanleg þannig að hún takmarki möguleika til að haga starfi í samræmi við aðstæður og þarfir hverju sinni. Mikilvægt er að lýsingar séu í góðu jafnvægi, hlutlægar og á einföldu og auðskiljanlegu máli.
Ráðgjafi þinn hjá NPA miðstöðinni getur aðstoðað þig við að útbúa starfslýsingar fyrir aðstoðarfólk þitt.
Til þess að nýráðin aðstoðarmanneskja nýtist þér sem best og vaxi inn í starfið sitt þarftu að ganga úr skugga um að hún fái góða aðlögun. Það er auðveldara fyrir aðstoðarmanneskju að sinna starfi sínu vel ef þú segir henni hvað hún á að gera strax í upphafi og leiðbeinir henni vel. Leiðréttið og útskýrið strax ef aðstoðarmanneskjan gerir eitthvað rangt. Það er auðveldara að gera það strax en að gera það sex mánuðum síðar.
Á aðlögunartímanum er einnig mikilvægt að kynna hlutverk verkstjórnanda, aðstoðarfólks og NPA miðstöðvarinnar sem umsýsluaðila fyrir aðstoðarfólki og hvaða þýðingu þessi ólíku hlutverk hafa fyrir aðstoðarmanneskjuna. Margir verkstjórnendur telja að það virki vel að gera lista yfir það sem er mikilvægt að hafa með í kynningunni fyrir fram. Hér eru nokkur dæmi:
NPA miðstöðin býður upp á námskeið um NPA fyrir verkstjórnendur og aðstoðarfólk. M.a. er boðið upp á námskeið um hugmyndafræðina um sjálfstætt líf, námskeið um líkamsbeitingu og um skyndihjálp. Upplýsingar um námskeiðin má finna á vefsíðu og samfélagsmiðlum NPA miðstöðvarinnar.
Það er hins vegar í þínum verkahring sem verkstjórnandi, að fara yfir þá hluta starfsins sem eru einstaklingsbundnir og eiga aðeins við um þig og þínar aðstæður. Æskilegt er að fara vel yfir eftirfarandi atriði í upphafi og aðlaga aðstoðarfólk þitt að þessum aðstæðum.
Farðu yfir:
Sumir verkstjórnendur kjósa að yfirfara með aðstoðarmanneskjunni hvernig hefur gengið, þegar hún hefur starfað hjá viðkomandi í nokkrar vikur. Þá er jafnframt hægt að ræða þær breytingar sem mögulega þarf að gera.
Aðrir verkstjórnendur kjósa frekar að segja aðstoðarfólki sínu reglulega hvað það gerir vel og hvað má betur fara. Að sjálfsögðu er hægt að gera hvort tveggja, þ.e. ræða málin reglulega og halda stöðufund.