Þennan kafla handbókarinnar getur þú sem verkstjórnandi notað sem uppflettirit. Þannig getur þú ávallt flett upp í þessum köflum þegar þörf er á. Í kaflanum er farið yfir þær reglur og kjaramál sem mikilvægt er fyrir verkstjórnendur að kunna skil á varðandi sitt aðstoðarfólk.
Starfshlutfall er liður sem kemur fram í ráðningarsamningi aðstoðarfólks og endurspeglar hversu mikið aðstoðarmanneskja vinnur að jafnaði á mánuði eða hverju launatímabili, það er að segja; tímabilið frá 21. hvers mánaðar til 20. næsta mánaðar. Vinnutími getur verið breytilegur á milli mánaða eftir því hvernig vaktir eru skipulagðar en mikilvægt er að starfsfólk fái það starfshlutfall á hverju launatímabili að jafnaði sem samið var um við ráðningu. Sé um sveigjanlegt starfshlutfall að ræða, þá er mikilvægt að samkomulag sé á milli verkstjórnanda og aðstoðarfólks hver vaktafjöldi er á launatímabilinu.
Fullt starf er að meðaltali 156 vinnustundir í mánuði. Aðstoðarfólk sem vinnur innan við 156 klukkustundir á mánuði að meðaltali eru í hlutastarfi. Starfshlutfall getur verið sveigjanlegt á milli mánaða, þá getur heildarfjöldi unninna vinnustunda verið mismunandi. Aðstoðarfólk fær greitt samkvæmt unnum vinnustundum sem skráðar eru og skilað er í vinnuskýrslu. Til viðbótar við unnar vinnustundir þá greiðir verkstjórnandi jafnframt vetrarorlof samkvæmt kjarasamningi og persónulegan tíma (áður neysluhlé).
Aðstoðarfólk sem er ráðið í ákveðið starfshlutfall verður að fá vinnustundir skipulagðar á sig í samræmi við starfshlutfall sitt. Þrátt fyrir að samið sé um ákveðið starfshlutfall getur það verið lítillega sveigjanlegt milli mánaða. Þannig þarf aðstoðarfólk ekki alltaf að hitta akkúrat á þann fjölda vinnustunda sem það á að vinna í hverjum mánuði, heldur að meðaltalið sé rétt. Hins vegar er mikilvægt að skynsemi ráði för varðandi þennan sveigjanleika og að meðaltalsfjöldi vinnustunda sveigist ekki allt of mikið.
Sem dæmi má nefna að aðstoðarmaður sem vinnur 165 vinnustundir í einum mánuði og 147 vinnustundir í næsta mánuði er að meðaltali með 156 vinnustundir á þessum tveimur mánuðum. Hér getur munað talsverðu á milli mánaða vegna þess hvernig vaktir raðast, sérstaklega þegar um sólarhringsvaktir er að ræða. Mikilvægt er að verkstjórnendur skoði vel hvernig vaktir raðast á aðstoðarfólkið sitt og gæti þess að jafna út álagið eins mikið og kostur er.
Verkstjórnandi og aðstoðarfólk geta komið sér saman um að starfshlutfallið sé sveigjanlegt með þessum hætti. Aðstoðarfólk sem ráðið er inn með þessum hætti þarf eftir sem áður að vera ráðið í viðmiðunarstarfshlutfall og getur það hlutfall verið á ákveðnu bili, t.d. frá 50% til 60% hlutfall eða 80% til 100% hlutfall. Sveigjanleikinn getur þannig verið nokkur á milli mánaða eða eftir tímabilum samkvæmt samkomulagi milli aðstoðarfólks og verkstjórnanda. Einnig má ráða aðstoðarfólk í afleysingar. Þá er ekki ráðið í ákveðið starfshlutfall heldur kemur viðkomandi starfsmaður inn eftir þörfum og hentugleika. Þetta ráðningarform hentar sérstaklega þeim sem vilja vera til taks, taka aukavaktir og tilfallandi vaktir, en ekki skuldbinda sig til að vinna tiltekin fjölda af vöktum í mánuði.
Hvort sem þú velur að ráða í fullt starf, hlutastarf eða afleysingar og hvernig sem sveigjanleikinn verður í skipulagi vakta þá geta bæði kostir og gallar fylgt hverju fyrirkomulagi fyrir sig, bæði fyrir þig sem verkstjórnanda og fyrir aðstoðarfólkið þitt. Ráðgjafar NPA miðstöðvarinnar geta verið þér innan handar ef þú vilt fræðast betur um hvaða fyrirkomulag hentar þér og þínu aðstoðarfólki best.
Þú getur skipulagt vinnutíma þíns aðstoðarfólks hvenær sem er og hvar sem er. Þú ert ekki bundin/inn/ið við það að skipuleggja vaktir alltaf á sama tíma dags. Ef þú ert ekki með aðstoð allan sólarhringinn getur þú til dæmis ákveðið að vera með aðstoð að kvöldi og yfir nótt, til dæmis ef þú ert að fara út að skemmta þér, þó þú sért alla jafna einkum með aðstoð yfir daginn.
Vinnutími aðstoðarfólks getur því verið allur sólarhringurinn. Það er þó mikilvægt fyrir þig að muna hvenær mismunandi álög falla á vinnustundir þíns aðstoðarfólks og hvaða þýðingu það hefur. Þú getur lesið meira um þetta undir fyrirsögninni „Dagvinna og álag – kvöld-, helgar- og næturvinna“.
Tíminn frá kl. 08:00 til kl. 17:00 á virkum dögum, þ.e. frá mánudegi til föstudags, nefnist dagvinna. Á þeim tíma fær aðstoðarfólkið þitt greiddan dagvinnutaxta. Það þýðir að ekkert álag leggst á vinnustundir þeirra.
Í vaktavinnu greiðist álag á þann hluta vinnutíma sem fellur utan dagvinnutímabils. Eftir kl. 17:00 á virkum dögum og til miðnættis leggst 33,33% álag ofan á dagvinnuna, en 55% á föstudögum. Eftir miðnætti og til kl. 8:00 greiðist næturvinnuálag, sem er 65%. Um helgar er greitt 55% álag frá kl. 08:00 til miðnættis en 75% álag frá miðnætti til kl. 8:00 laugardaga, sunnudaga og mánudaga.
Vinna á helgidögum, frídögum og stórhátíðardögum greiðist svo ýmist með 55% álagi eða 120% álagi eftir kjarasamningi. Greitt er 165% álag á næturvinnu á stórhátíðardögum.
Undanþága frá þessu er svo varðandi hvíldarvaktir, en á hvíldarvöktum, á meðan aðstoðarmaður er í hvíld, greiðist eingöngu dagvinnutaxti.
Fullt starf NPA aðstoðarfólks er 156 tímar yfir mánuðinn. Innan þess viðmiðs getur þú skipulagt vaktir þíns aðstoðarfólks, en þú verður þó að passa þig á að tryggja nægjanlega hvíld á milli vakta og einnig verður þú að huga að reglum sem lúta að lágmarks og hámarks lengd vakta.
Samkvæmt kjarasamningi má ekki skipuleggja vakt sem er lengri en 12 tímar og vaktir mega ekki vera styttri en 3 tímar. Vaktir á að skipuleggja í samfelldri heild en hins vegar má skipuleggja hlé á vöktum og fyrir slíkar eyður ber að greiða 1 tíma í yfirvinnu. Þannig má til dæmis skipuleggja þriggja tíma vakt sem er ein klst. um morguninn frá kl. 9:00 til 10:00 síða er hlé á vaktinni til kl. 20:00 (ein yfirvinnustund greidd og 1.klst auka um morguninn). Þá er vaktin kláruð frá kl. 20:00 til 22:00.
Hins vegar eru til sérreglur sem gilda um aðstoðarfólk þeirra sem geta skipulagt sólarhringsvaktir með hvíldarvöktum. Um þessa tegund vakta gildir að skipuleggja má eina vakt sem er allur sólarhringurinn og jafnvel tveir samliggjandi sólarhringar. Ein vakt getur því verið allt að 48 klst. Hins vegar gilda strangar reglur um hvíldartíma aðstoðarfólks og hvíldaraðstöðu þeirra á þessum vöktum. Þú getur lesið meira um þetta undir kaflanum „Hvíldarvaktir“.
Alla jafna má ekki skipuleggja vakt sem er lengri en 12 klst., eða styttri en 3 klst. Samkvæmt sérkjarasamningi NPA miðstöðvarinnar við Eflingu/SGS er þó heimilt að skipuleggja sólarhringsvaktir fyrir aðstoðarfólk í NPA, að hámarki tvær samfelldar sólarhringsvaktir, að því tilskyldu að lágmarkshvíld aðstoðarfólks sé tryggð. Lágmarks hvíldartími á sólarhringsvöktum eru átta samfelldar klukkustundir. Eftir eina sólarhringsvakt þarf að tryggja að minnsta kosti 24 klukkustunda hvíld í lok vaktar, en tvo sólarhringa í lok vaktar sé um tvær samfelldar sólarhringsvaktir að ræða. Til þess að skipuleggja megi hvíldarvaktir þarf að huga vandlega að ýmsum atriðum varðandi aðstoðarfólkið. Þú getur lesið meira um hvíldarvaktir undir kaflanum „Hvíldarvaktir.“
Samkvæmt sérkjarasamningi Eflingar/SGS við NPA miðstöðina á aðstoðarfólk rétt á einum vikulegum sólarhring í frí í beinum tengslum við daglegan hvíldartíma á hverju 7 sólarhringa tímabili. Þessum hvíldardegi má hliðra til þegar starfsfólk dvelst innanlands í lengri tíma utan heimilis verkstjórnanda að því tilskyldu að ekki líði meira en 12 sólarhringar á milli 2 frídaga.
Aðstoðarfólk í vaktavinnu fær ekki sérstaka matar- og kaffitíma. Aðstoðarfólk á þó að hafa kost á því að neyta matar og kaffis við vinnu sína á vaktinni, þegar því verður við komið starfsins vegna. Vegna þessarar takmörkunar á matar- og kaffitímum þá fær aðstoðarfólk greiddar 5 mínútur á yfirvinnukaupi fyrir hvern unninn klukkutíma. Þetta álag nefnist „Persónulegur tími“ og er auðkennt sérstaklega á launaseðli aðstoðarfólks.
Aðstoðarfólk á rétt á því að taka hlé í að minnsta kosti 15 mínútur ef vinnutími þess er lengri en 6 klst. en þetta er þó óskipulagður tími. Matar- og kaffitími telst vera hlé í þessu sambandi.
Mjög mikilvægt er að þú sem verkstjórnandi eigir í góðum samskiptum við aðstoðarfólkið þitt varðandi pásur og matarhlé. Taktu tillit til aðstoðarfólks varðandi matarpásur, reyndu að gefa þeim kost á að borða á sama tíma og þú eða rétt á undan eða eftir þér. Best að er segja hreint út að nú megi starfsmaðurinn taka pásu eða taka 30 mínútur í mat eða eitthvað slíkt. Þú getur einnig spurt hvernig aðstoðarfólk vill haga matarpásum sínum og reynt að taka tillit til þess.
Hvíldarvakt (einnig nefnd sofandi vakt) er hluti sólarhringsvaktar. Sólarhringsvakt getur verið frá 24 klst. og upp í 48 klst. að hámarki (tvær samfelldar sólarhringsvaktir).
Hvíldarvakt er sá hluti sólarhringsvaktar sem nær yfir nóttina, eða þann hluta sem bæði notandinn og aðstoðarmanneskjan hvílast. Slík vakt getur til dæmis verið þannig að hún hefjist kl. 8:00 um morguninn sem vakandi vakt þegar aðstoðarmanneskjan mætir til vinnu. Hún er með notandanum allan daginn og kl. 23:00 fer notandinn að sofa og sendir aðstoðarmanneskju á hvíldarvakt. Þannig hefst hvíldarvaktin. Kl. 07:00 vaknar notandinn og kallar aðstoðarmanneskjuna úr hvíldarvaktinni. Þar með lýkur hvíldarvakt og við tekur hefðbundin vakandi vakt. Næsta aðstoðarmanneskja kemur kl. 8:00 og þá eiga sér stað vaktaskipti og við tekur ný sólarhringsvakt.
Hvíldarvakt er sérstök útgáfa af bakvakt þar sem viðveru aðstoðarmanneskju er krafist án vinnuframlags, en aðstoðarmanneskja þarf að bregðast við útköllum, vakna og aðstoða NPA notanda, og fær hún þá greitt fyrir útköll. Á hvíldarvöktum er greiddur dagvinnugrunnur en ekki álag. Hins vegar ef notandinn kallar út aðstoð á meðan hvíldarvaktinni stendur greiðist álag í samræmi við þann tíma dags sem aðstoðin er kölluð út. Ef til dæmis notandinn kallar út aðstoð frá aðstoðarmanneskju sem er í hvíld kl. 03:00 um nóttina, greiðist 65%-75% álag í eina klukkustund að lágmarki ofan á dagvinnugrunninn. Ef notandinn kallar út aðstoð frá aðstoðarmanneskju á virkum degi á hvíldarvakt kl. 08:00 en heldur svo áfram í hvíld, greiðist áfram dagvinnugrunnur fyrir hvíldarrofið, enda var rofið á dagvinnutíma.
Markmið með hvíldarvakt er að aðstoðarfólk fái að jafnaði u.þ.b. fullnægjandi nætursvefn, enda þarf NPA notandi einnig sinn svefn með sama markmiði.
Mikilvægt er fyrir verkstjórnendur að átta sig á að ekki geta allir nýtt sér hvíldarvaktir. Til að verkstjórnandi geti nýtt sér hvíldarvaktir, verður heimili hans eða viðverustaður að vera þannig útbúið að aðstoðarfólk hafi aðstöðu fyrir sig og geti hvílst með fullnægjandi hætti.
Í kjarasamningi koma fram skilyrði um fullnægjandi hvíldaraðstöðu fyrir aðstoðarfólk. Í samningnum segir að hvíldaraðstaða skuli vera fyrir hendi í hentugu herbergi sem er ekki notað til annars á meðan á hvíld stendur. Hvíldaraðstaðan á jafnframt að vera í nálægð við salerni og handlaug. Þetta þýðir að hvíldaraðstaða aðstoðarfólks, svo hún teljist vera fullnægjandi, verður að vera í rými þar sem er ró og svefnfriður og að rýmið sé ekki notað til annars á meðan á hvíld stendur. Þannig verður að gæta þess að ekki séu óþarfa truflanir eða umgangur um svefnaðstöðuna. Ef hvíldaraðstaðan væri til dæmis í setustofu hjá verkstjórnanda mætti ekki nýta setustofuna til annars á meðan aðstoðarmanneskjan er í hvíld, því annars telst hvíldarvaktin ekki vera hafin.
Jafnframt verður hvíldaraðstaðan sjálf að vera góð og aðstaðan ætluð til svefns. Hér verður að vera til staðar uppábúið rúm eða beddi ásamt sæng, kodda og hreinum sængurfötum, eins og fólk gerir almennt kröfur um við nætursvefn.
Þú sem verkstjórnandi verður að meta áður en þú ræður aðstoðarfólk til starfa hvort þú þurfir og getir nýtt þér hvíldarvaktir eða hvort þú þarft vakandi næturvaktir. Þetta þarft þú að skoða og skipuleggja í samráði við NPA miðstöðina og sveitarfélagið þitt. Munurinn á hvíldarvakt og vakandi vakt er m.a. sú að ekki þarf svefnaðstöðu með uppábúnu rúmi ef vaktin er vakandi vakt.
Aðeins er heimilt að skipuleggjasólarhringsvaktir með hvíldarvöktum þegar unnt er að tryggja bæði fullnægjandi hvíldaraðstöðu og fullnægjandi hvíldartíma.
Greinarmunur er gerður á kröfu á hvíldartíma á stakri sólarhringsvakt og svo samfelldum sólarhringsvöktum.
Á stakri sólarhringsvakt verður hvíldartíminn að vera að lágmarki 8 samliggjandi klst, með að hámarki tveimur rofum. Hvert rof má að hámarki vera 15 mínútur.
Á samfelldum sólarhringsvöktum, þ.e. tveimur samliggjandi sólarhringsvöktum, verður hvíldartíminn að vera að lágmarki 8 samliggjandi klst. á hvorum sólarhring, með að hámarki einu rofi á hvorum sólarhring. Rof má að hámarki vera 15 mínútur.
Hvíldarvaktir verða að vera skipulagðar á tímabilinu frá kl. 22:00 til kl. 10:00.
Ef þú skipuleggur sólarhringsvaktir með hvíldarvöktum þá verður ákveðin tími að líða á milli þess sem sólarhringsvakt lýkur og þangað til þú getur skipulagt næstu sólarhringsvakt. Hér er aftur gerður greinarmunur á milli stakra sólarhringsvakta og samfelldra sólarhringsvakta.
Eftir hverja staka sólarhringsvakt verður að tryggja að minnsta kosti 24 klst. hvíld í lok vaktar. Það þýðir að ef sólarhringsvakt lýkur kl. 08:00 að morgni þá má sá aðstoðarmaður sem vann sólarhringsvaktina ekki mæta á næstu vakt fyrr en kl. 08:00 daginn eftir í fyrsta lagi.
Ef þú skipuleggur tvær samliggjandi sólarhringsvaktir verða að minnsta kosti að líða tveir sólarhringar þangað til aðstoðarmanneskjan má mæta á næstu vakt. Það þýðir að ef tveggja sólarhringa samliggjandi vakt lýkur kl. 12:00 á þriðjudegi þá má næsta vakt starfsmannsins hefjast í fyrsta lagi kl. 12:00 á fimmtudegi í sömu viku.
Fjóla flutti nýverið í litla stúdíóíbúð á stúdentagörðum. Hún er með NPA aðstoð allan sólarhringinn. Aðeins er eitt rúm í íbúðinni sem er nægjanlega stórt fyrir hana, lítill tveggja manna sófi og hægindastóll ásamt skrifborði og stól. Baðherbergi er sameiginlegt frammi á gangi. Fjóla getur ekki nýtt sér hvíldarvaktir þar sem hún getur ekki tryggt fullnægjandi hvíldaraðstöðu fyrir aðstoðarfólkið sitt á vöktum. Því verður hún að skipuleggja vakandi næturvaktir, sem eru að hámarki 12 klst. hver.
Haukur er með NPA aðstoð allan sólarhringinn. Hann er með aukaherbergi í íbúðinni sinni þar sem hann hefur komið fyrir rúmi, stól og lítilli kommóðu fyrir aðstoðarfólkið sitt.
Hvíldarvakt Páls, aðstoðarmanns Hauks, hefst kl. 00:30. Haukur vaknar kl. 01:45 og fær Pál til að aðstoða sig við að snúa sér. Haukur vaknar aftur kl. 06:50 og þarf að komast á salernið. Hann fær Pál til að aðstoða sig og heldur svo áfram að sofa. Hann vaknar svo kl. 9:30 og kallar á Pál af hvíldarvaktinni.
Þetta telst fullnægjandi hvíld, þar sem Páll er á stakri sólarhringsvakt og fær hvíld frá 00:30 (hvíldarvakt hófst) til 9:30 (hvíldarvakt lauk). Hvíldin telur samtals 9 klst. og inniheldur ekki fleiri en tvö rof á þeim tíma og uppfyllir þar með skilyrði um stakar sólarhringsvaktir þar sem hvíldartími skal telja að lágmarki 8 klst. og innihalda að hámarki 2 rof.
Ef þetta væri hins vegar partur af samliggjandi sólarhringsvakt (48 klst.) mætti eingöngu vera 1 rof á hvíldarvakt og lágmarkshvíld er áfram 8 klst. Í báðum tilvikum skal hvíldin eiga sér stað á bilinu kl. 22:00 til 10:00.
Gréta er með NPA aðstoð allan sólarhringinn. Hún þarf frekar oft aðstoð á nóttunni, þar sem hún þarf að snúa sér reglulega. Hún er með sér herbergi fyrir sitt aðstoðarfólk með góðu uppábúnu rúmi. Gréta kallar yfirleitt á aðstoðarfólkið sitt á næturnar til að aðstoða sig, yfirleitt um 3-4 sinnum, en hún sefur lengi. Dæmigerð næturvakt hjá Grétu er eftirfarandi: Sofnar kl. 23:30 – Vaknar kl. 1:30, fær aðstoð við að snúa sér – Vaknar kl. 02;45, fær aðstoð við að snúa sér – Vaknar kl. 04:30, fær aðstoð við að snúa sér – Vaknar kl. 07:30, fær aðstoð við að snúa sér – Vaknar kl. 9:00, fær aðstoð við að fara fram úr. Gréta getur ekki skipulagt hvíldarvaktir með þessu áframhaldi þar sem þetta teljast vera of mörg rof og ekki nægjanlega löng samfelld hvíld fyrir aðstoðarfólkið, þó svo að Gréta hvílist í 9 klst. og 30 mínútur. Þess vegna verður Gréta að skipuleggja vakandi næturvaktir sem eru að hámarki 12 klst. að lengd.
Sigurjón er með NPA aðstoð allan sólarhringinn. Hann skipuleggur samliggjandi sólarhringsvaktir fyrir sitt aðstoðarfólk. Sigurjón sendir aðstoðarmanninn sinn, Pétur, í hvíld kl. 22:30 á fimmtudegi. Hann vaknar einu sinni og kallar á aðstoð frá Pétri til að fá sér að drekka, en vaknar svo kl. 07:30 á föstudeginum. Á föstudeginum fer Sigurjón út að borða með vinum sínum og kemur seint heim. Hann sendir Pétur á hvíldarvakt kl. 1:30, en fær slæma magapest um nóttina. Hann kallar á Pétur alls fimm sinnum yfir nóttina með reglulegu millibili til að aðstoða sig. Hann vaknar kl. 10:30 og kallar á Pétur af hvíldarvaktinni.
Á fyrri hvíldarvaktinni er hvíldarþörf Péturs uppfyllt en ekki seinni nóttina. Því verður að meðhöndla alla vakt Péturs sem vakandi næturvakt þar sem ekki tókst að uppfylla skilyrði um hvíld á seinni vaktinni.
Bakvaktir eru vaktir þar sem búið er að skrá aðstoðarfólk á vaktaskrá og það er í vinnu en ekki á staðnum þar sem verkstjórnandi er. Aðstoðarmanneskja er þá viðbúin því að þú munir hafa samband meðan á bakvakt stendur og biðja viðkomandi að koma til þín þegar þú þarft á að halda. Þegar þú hefur samband við aðstoðarmanneskjuna og biður um aðstoð nefnist það útkall.
Fyrir útkall á bakvakt fær aðstoðarfólk greitt fyrir þann tíma sem unnin er. Hafðu í huga að greiða þarf að lágmarki þrjár klukkustundir, nema að viðkomandi aðstoðarmanneskja eigi að mæta á vakt innan tveggja stunda frá því viðkomandi kom til vinnu.
Aðstoðarfólk á bakvakt sem á að bregðast tafarlaust við útkalli fær borgað sem samsvarar 33,33-45% af dagvinnulaunum fyrir hverja unna klukkustund. Á almennum frídögum er hlutfallið 45 og allt upp í 165% á stórhátíðum. Þegar ekki er sú krafa á aðstoðarfólk að það þurfi að bregðast tafarlaust við, en það sé tilbúið til vinnu um leið og til þess næst þá greiðist 16,67-22,5% af dagvinnukaupi fyrir hverja unna klukkustund, en á almennum frídögum 22,5% og upp í 82,5% á stórhátíðum.
Þú verður því að ákveða hvort aðstoðarmanneskjan þín sé á bakvakt þar sem hún getur þurft að bregðast tafarlaust við eða á bakvakt þar sem hún þarf aðeins að vera tilbúin þegar til hennar næst.
Aðstoðarfólk sem vinnur í hlutastarfi getur boðist til að taka aukavaktir, allt upp í sem nemur fullu starfi. Það getur til dæmis átt við þegar aðstoðarmanneskja býðst til þess að taka aukalega vinnustundir fyrir annan starfsmann, leysir hann af eða óskar eftir því að vinna meira á tilteknu tímabili. Það verður að vera skýrt að starfsmaðurinn hefur heimild til að hafna vaktinni og viðbótarvinnan því valkvæð.
Ef þú þarft nauðsynlega á einhverjum að halda og enginn býður sig fram til að taka vaktina sem þú þarft að manna, þá getur þú fyrirskipað aðstoðarmanneskju að taka aukavakt. Lestu meira um þetta undir fyrirsögninni „Boðaðar aukavaktir“.
Fríða vill kanna hvort aðstoðarmaðurinn Albert, sem er í hlutastarfi, sé tilbúinn í að vinna 5 klukkustundum lengur en vaktaplanið segir til um. Fríða veit að Albert má hafna því að vinna lengur. Albert samþykkir aukavinnuna og teljast þessar 5 klukkustundir valkvæð aukavinna og Albert fær greitt samkvæmt hefðbundnu vaktaálagi en ekki yfirvinnuálag.
Kári, aðstoðarmaður Fríðu, tilkynnir veikindi. Fríða sendir út fyrirspurn til aðstoðarfólks síns um hvort einhver geti hlaupið í skarðið. Albert svarar fyrstur og segir að hann vilji taka vaktina í stað Kára. Þrátt fyrir að Albert sé að leysa Kára af, þá telur vinnutíminn í afleysingunum sem valkvæð aukavakt. Hafðu í huga að Kári hefur engu að síður rétt á að fá greitt fyrir sína vakt samkvæmt veikindarétti sínum.
Ef Albert er hins vegar í fullu starfi þá telja þeir tímar sem eru unnir umfram starfshlutfall hans sem yfirvinna.
Ef þær aðstæður skapast að þú ert án aðstoðar á skipulagðri vakt af einhverjum ástæðum þá getur þú boðað tiltekna aðstoðarmanneskju á vaktina til að vinna. Þú getur aðeins notað þetta úrræði við tilteknar aðstæður, til dæmis þegar aðstoðarmanneskja mætir ekki til vinnu á þeim tíma sem hún á að vinna eða ef eitthvað óvænt kemur upp á hjá þér.
Þú getur aðeins boðað aðstoðarfólk á aukavakt sem er fastráðið samkvæmt ráðningarsamningi, þ.e. aðeins það aðstoðarfólk sem starfar á skipulögðum vöktum, en ekki þá sem eru í sveigjanlegu starfi.
Boðaðar aukavaktir eru alltaf taldar sem yfirvinna og greiðast því yfirvinnutímar alla vaktina. Þess vegna skaltu aðeins nýta boðaðar aukavaktir í neyðartilvikum og hafa þær eins stuttar og mögulegt er. Tilgreindu á vinnuskýrslu aðstoðarfólks hvaða vaktir eru boðaðar aukavaktir.
THversu margar vinnustundir aðstoðarfólks hefur þú sem verkstjórnandi úr að spila?
Margrét, aðstoðarkona Lilju, hringir þegar vaktin hennar er að byrja og segir að hún sé lasin. Lilja er að hugsa um hverja hún getur boðað að vinna í stað hennar. Hún veit að ein aðstoðarkona sín er í orlofi og önnur er einstæð með lítil börn. Þriðja aðstoðarkona hennar, Ylfa, býr langt í burtu. Hún hringir í Alex, sem er lausráðið en hán segir nei. Þar sem hán er ekki fastráðið og með ráðningarsamning sem afleysingamanneskja getur Lilja ekki boðað hán til vinnu. Þar af leiðandi ákveður Lilja að boða Ylfu til vinnu, þrátt fyrir að hún búi langt í burtu. Lilja telur að hún geti verið án aðstoðar þann tíma sem það tekur Ylfu að komast til vinnu.
Karl er með alla sína starfsmenn á afleysingasamningum. Þannig vinna aðeins þeir aðstoðarmenn sem vilja vinna, þegar þeir vilja, eins mikið og hentar þeim hverju sinni. Aðstoðarmenn Karls skrá sig á vaktirnar sjálfir í hverri viku. Eina vikuna skráir sig enginn á vakt. Karl getur ekki boðað neinn þeirra til vinnu þar sem enginn þeirra er fastráðinn.
Þegar aðstoðarmanneskja þarf að vinna fleiri vinnustundir en sem nemur því starfshlutfalli sem hún hefur verið ráðin til að vinna samkvæmt ráðningarsamningi kallast það almennt séð yfirvinna. Hafa ber í huga þá fyrirvara og þau viðmið sem fjallað er um í köflunum „Sveigjanleiki starfshlutfalls“, „Bakvaktir“, „Aukavaktir“ og „Boðuð aukavakt“.
Sú regla gildir að öll vinna umfram umsamið starfshlutfall er yfirvinna. Þannig er öll vinna umfram 156 vinnustundir að meðaltali í mánuði, sem telst vera fullt starf, yfirvinna.
Aðstoðarmanneskja sem er í hlutastarfi getur unnið upp í fullt starf ef hún óskar þess, með því að taka valkvæðar aukavaktir og það telst þá ekki sem yfirvinna, sjá nánar í kaflanum „Valkvæðar aukavaktir“.
Þú ættir að reyna eftir fremsta megni að koma í veg fyrir eða takmarka alla yfirvinnu. Hafðu í huga að upphæð þíns NPA samnings er föst upphæð og engir NPA samningar gera ráð fyrir því að greidd sé yfirvinna. Yfirvinna hefur það því í för með sér að þjónustan þín skerðist þar sem þú þarft að greiða meira fyrir þær vinnustundir sem þú nýtir en þú færð framlag fyrir frá sveitarfélaginu. Þú nærð því að skipuleggja færri vinnustundir aðstoðarfólks fyrir vikið.
Ræddu við ráðgjafa þinn hjá NPA miðstöðinni um hversu mikil áhrif yfirvinna getur haft á þinn NPA samning og hvernig best er að bregðast við nauðsynlegri yfirvinnu.
Yfirvinnu er skipt í yfirvinnu 1 og yfirvinnu 2 og skiptist með eftirfarandi hætti:
Yfirvinna 1 er greidd á milli kl. 08:00 og 17:00 mánudaga til föstudaga (á datgvinnutíma á virkum dögum).
Yfirvinna 2 er greidd á öllum öðrum tímum.
Baldur aðstoðarmaður vinnur 30 klst. viku skv. ráðningarsamningi sínum og vaktaskipulagi. Aðstoðarmaðurinn sem vinnur á vaktinni á undan honum verður veikur og verkstjórnandi hans, Fríða, er aðeins með afleysingu fyrir hluta vaktarinnar. Fríða útskýrir stöðuna fyrir Baldri og segir að hann þurfi því miður að koma tveimur klukkustundum fyrr á vaktir á mánudag og þriðjudag í næstu viku. Þessar klukkustundir teljast sem yfirvinna þar sem þær eru umfram umsamið starfshlutfall hans.
Guðmundur aðstoðarmaður hefur heyrt að Andra gangi illa að finna afleysingu fyrir vakt á miðvikudagseftirmiðdag. Hann býðst til þess að vera áfram eftir að vaktinni hans lýkur á miðvikudeginum, ef hann getur losnað við vaktina sína á föstudeginum í staðinn. Andri getur fundið afleysingu á vaktina hans Guðmundar á föstudeginum og segir því já. Aukavinna Guðmundar á miðvikudeginum telst ekki sem yfirvinna, þar sem aukavinnan er valkvæð og hann vinnur jafn margar vinnustundir til viðbótar og þær sem falla niður.