Leita
Stækka letur
Hlusta

Siðasáttmáli NPA miðstöðvar

Formáli

Siðasáttmáli þessi nær til allra hlutaðeigandi aðila innan NPA miðstöðvarinnar, s.s. verkstjórnenda, aðstoðarverkstjórnenda, persónulegs aðstoðarfólks, stjórnar miðstöðvarinnar, starfsfólks skrifstofu og annarra er hlut eiga að starfi miðstöðvarinnar. Allir hlutaðeigandi aðilar skulu kynna sér reglur og gildi siðasáttmálans og hafa hvort tveggja ávallt að leiðarljósi.

Tilgangur og markmið sáttmálans

Tilgangur og markmið þessa siðasáttmála er að vera öllum hlutaðeigandi aðilum, siðferðislegur stuðningur við dagleg störf og til tilvísunar við lausn siðferðislegra álitamála. Siðasáttmálanum er ekki ætlað að koma í stað almennra laga, starfslýsinga eða ráðningarsamninga. Tilgangur sáttmálans er að upplýsa hlutaðeigandi aðila um hvaða hegðunar er vænst af þeim í starfi þeirra í tengslum við NPA miðstöðina. Sáttmálanum er jafnframt ætlað að vera leiðarvísir fyrir verkstjórnendur, aðstoðarfólk og NPA miðstöðina að farsælli  og öruggri framkvæmd NPA.

Ætlast er til að verkstjórnendur hafi þennan siðasáttmála að leiðarljósi þegar ráðningarsamningur er gerður við aðstoðarfólk, þannig að ráðningarsamningur og starfslýsing fari ekki gegn sáttmálanum.

Hugmyndafræðin

Notendastýrð persónuleg aðstoð (NPA) er þjónustuform sem byggir á hugmyndafræðinni um sjálfstætt líf. Markmið NPA er að fatlað fólk geti lifað sjálfstæðu lífi á eigin forsendum og haft sömu möguleika og ófatlað fólk.

NPA verkstjórnandi: Einstaklingur með NPA kallast verkstjórnandi eða notandi. Verkstjórnandi er yfirmaður síns aðstoðarfólks, hann tekur endanlega ábyrgð og ákvörðun um ráðningu og skipulag þjónustunnar innan þess ramma sem lög og regluverk setja. Með NPA hefur verkstjórnandi fulla stjórn á hver aðstoðar sig, við hvað er aðstoðað, hvernig aðstoðin er veitt, hvar aðstoðin fer fram og hvenær. Þetta er kjarninn í NPA. Notandinn er alltaf í aðalhlutverki í NPA og jafnvel þó sveitarfélög og umsýsluaðilar komi að framkvæmd NPA, þá er það notandinn sem er ávallt við stjórnvölinn. Með þessu sjálfsagða frelsi fylgir þó einnig mikil ábyrgð, bæði réttindi og skyldur, sem fara þarf vandlega með og sem krefst þekkingar á hlutverki allra aðila sem koma að NPA.

NPA aðstoðarverkstjórnendur: Sumt fólk þarf aðstoð við hlutverk sitt sem verkstjórnandi. Í slíkum tilvikum er mikilvægt að hafa aðstoðarverkstjórnanda. Aðstoðarverkstjórnandi er ekki yfirmaður aðstoðarfólksins.  Aðstoðarverkstjórnandi styður verkstjórnanda sinn í hlutverki sínu og skal leitast við að tryggja að aðstoðarfólkið starfi alltaf á forsendum verkstjórnandans.

NPA aðstoðarfólk: Hlutverk aðstoðarfólks er að aðstoða verkstjórnanda við þær athafnir sem hann þarf aðstoð við. Störf aðstoðarfólks geta þannig verið mjög fjölbreytt og fara eftir ólíkum þörfum og lífsstíl þess einstaklings sem aðstoðarfólkið er ráðið í vinnu hjá. Oftast er ætlast til þess að aðstoðarfólk sé frekar hlutlaust í starfi sínu og hafi engin eða sem minnst áhrif á athafnir og ákvarðanatöku verkstjórnandans. Einnig getur verið mikilvægt fyrir aðstoðarfólk að láta lítið fyrir sér fara þegar það á við, svo sem á fundum og í fjölskylduboðum. Aðrir vilja frekar að aðstoðarfólk taki þátt í samræðum og sé partur af félagsmynstri sínu. Mikilvægt er að verkstjórnandi ræði við sitt aðstoðarfólk um hvað eigi við hverju sinni.

Það er grundvallaratriði að aðstoðarfólk átti sig á mikilvægi þagmælsku og trúnaðar í starfi. Trúnaðarskyldan er lögbundin en aðstoðarfólk skrifar einnig undir trúnaðaryfirlýsingu þegar það hefur störf. Trúnaðarskyldan er þó takmörkuð og nær til dæmis ekki til réttinda aðstoðarfólks í starfi eða háttsemi verkstjórnanda sem gæti flokkast undir lögbrot.

NPA miðstöðin: NPA miðstöðin er samvinnufélag í eigu og undir stjórn fatlaðs fólks. NPA miðstöðin hefur það hlutverk að annast umsýslu með NPA samningum síns félagsfólks og ber samkvæmt lögum og reglum sem gilda um NPA, faglega ábyrgð á framkvæmd þjónustunnar, með notandanum. Þar sem NPA miðstöðin ber meðal annars svokallaða vinnuveitendaábyrgð gagnvart aðstoðarfólki notenda er mikilvægt fyrir miðstöðina að halda einnig vel utan um réttindi og öryggi aðstoðarfólks, alveg eins og félagsfólks.

NPA miðstöðin er einnig þekkingarfyrirtæki þar sem fatlað fólk með NPA safnar og miðlar þekkingu sinni til hvers annars. Félagsfólk NPA miðstöðvarinnar kýs stjórn og formann á aðalfundi miðstöðvarinnar einu sinni á ári, en auk stjórnar starfa fyrir miðstöðina framkvæmdastjóri, samskiptastýra, ráðgjafar og bókhalds- og launafulltrúar á skrifstofu miðstöðvarinnar í Urðarhvarfi 8 í Kópavogi.

Bæði verkstjórnendur og aðstoðarfólk geta leitað til NPA miðstöðvarinnar komi upp einhver álitamál í tengslum við réttindi í vinnusambandinu, samskiptaerfiðleikar, vandamál með vinnuaðstæður eða önnur mál sem eru viðkvæm eða erfið úrlausnar.

Siðavandi og notkun siðasáttmála

Í siðasáttmála NPA miðstöðvarinnar er gengið út frá því að viðtekinn skilningur sé á muninum á löglegri hegðun annars vegar og siðlegri hegðun hins vegar. Í raun er verið að ræða um tvo mismunandi hluti, þó lögleg hegðun og siðleg hegðun skarist á mörgum sviðum.

Mikilvægt er að verkstjórnendur biðji ekki aðstoðarfólk um að gera hluti eða aðstoða sig við hluti sem eru ólögmætir. Í slíkum aðstæðum ber aðstoðarfólk líklega sömu ábyrgð og verkstjórnandi á ólögmætum verknaði, þrátt fyrir að aðstoðarfólk sé eingöngu að fylgja fyrirmælum frá sínum yfirmanni og verkstjórnanda. Aðstoðarfólki ber þannig ávallt að hafna því að aðstoða notendur ef fyrirmælin fela í sér lögbrot.

Mikilvægt er að þau sem hafa eða vinna við NPA fylgi   ávallt lögum, en hafa jafnframt siðferðileg sjónarmið að leiðarljósi. Þá skulu allir hlutaðeigandi aðilar gera sér grein fyrir því að upp getur komið sú staða að þau standi frammi fyrir siðavanda. Standi fólk frammi fyrir siðavanda skal ávallt hafa siðasáttmála NPA til hliðsjónar við ákvarðanatöku.

Hjá NPA miðstöðinni gilda meðfylgjandi verklagsreglur, við úrvinnslu mála vegna ábendinga eða kvartana sem kunna að berast vegna eineltis, áreitis eða kynferðisofbeldis: Aðgerðaáætlun má sjá í þessum hlekk.

Hvert leita ég vegna siðavanda?

Siðasáttmála þessum, ásamt aðgerðaáætlun, er ætlað að leggja línurnar um  til hvers er ætlast af öllum hlutaðeigandi aðilum NPA miðstöðvarinnar, þ.e. verkstjórnendum, aðstoðarverkstjórnendum, aðstoðarfólki og starfsfólki skrifstofu.  Markmið siðasáttmálans er að stuðla að því að hegðun allra sé í takt við siðferðislegar kröfur hvers tíma, standi vörð um réttindi og vellíðan allra í starfi, og standi jafnframt vörð um ímynd miðstöðvarinnar og orðspor, trúverðugleika og framkvæmd NPA almennt.  

Með siðavanda er átt við atvik eða aðstæður þar sem fólk upplifir óæskilega hegðun. Eftirfarandi dæmi geta átt við hver sem gerandinn er eða hvort sem gerandinn er verkstjórnandi, aðstoðarmanneskja eða starfsfólk á skrifstofu miðstöðvarinnar:

  • Að einstaklingur verð fyrir kynferðislegri áreitni.
  • Að einstaklingur sé  beittur líkamlegu og/eða andlegu ofbeldi.
  • Að einstaklingur upplifi misbeitingu valds gegn sér með einhverjum hætti.
  • Að einstaklingur verði fyrir fötlunarbundnu ofbeldi.
  • Að einstaklingur upplifi síendurtekna eða langvarandi samskiptaörðuleika.
  • Að einstaklingur upplifi vanlíðan í samskiptum sem mögulega hafa áhrif á afköst hans. Að einstaklingur upplifi langvarandi álag.
  • Að einstaklingur upplifi vanvirðingu fyrir velferð, öryggi, umhverfi, verðmætum eða fjármagni sínu með einhverjum hætti.
  • Að einstaklingur upplifir trúnaðarbrest eða lögbrot.
  • Að einstaklingur upplifi að starfslýsing sé ekki virt né að fagmennska sé höfð að leiðarljósi í vinnusambandinu.

Hluteigandi aðilar geta tilkynnt grun um siðavanda til NPA miðstöðvarinnar á heimasíðunni HÉR. eða  með því að hringja í síma 567-2870  og óska eftir því að fá að ræða við ráðgjafa. Auk þess getur aðstoðarfólk einnig haft samband við trúnarðarmann NPA aðstoðarfólks hjá Eflingu.

Tilkynningar og trúnaður

Þegar  einstaklingur leitar til NPA miðstöðvarinnar  vegna gruns um siðferðisvanda eða vill tilkynna siðferðisvanda, ríkir trúnaður á milli þess sem tilkynnir og þess sem fær tilkynninguna á sitt borð. Sérstakur mannauðsfulltrúi á skrifstofu miðstöðvarinnar veitir nánari upplýsingar um trúnað og nafnleynd. Ef einstaklingur óskar eftir því að halda nafnleynd við meðferð máls er mikilvægt að viðkomandi geri sér grein fyrir því að erfiðara gæti reynst að leysa málið sé nafnleyndar gætt. Sum persónubundin mál er erfitt að leysa öðruvísi en með því að setjast niður og ræða málin augliti til auglitis, með eða án aðstoðar utanaðkomandi aðila.  Almennt séð er mikilvægt að málsaðilar geri sér grein fyrir því að misjafnt er hvesu vel er hægt að leysa úr ágreiningi málsaðila.

Hlutaðeigandi aðilar eru hvattir til að  leita til NPA miðstöðvarinnar ef grunur er um að siðferðisvandi sé til staðar í vinnusambandi.

Tilkynningar og hlutverk ráðgjafa

Samkvæmt verklagi NPA miðstöðvarinnar hefur hver og einn verkstjórnandi sinn persónulega ráðgjafa sem hefur það hlutverk að halda utan um NPA mál viðkomandi og vera leiðsögn og stuðningur við  allt sem tengist þeirra NPA málum, auk þess að vera ráðgjafi aðstoðarfólks viðkomandi. Aðstoðarverkstjórnendur og aðstoðarfólk hafa jafnan aðgang ráðgjafa hjá NPA miðstöðinni. Ráðgjafi er einnig bundinn trúnaði við aðstoðarverkstjórnanda og aðstoðarfólk verkstjórnanda. Þegar grunur um siðavanda er tilkynntur til NPA miðstöðvarinnar ratar erindið til viðeigandi aðila innan miðstöðvarinnar. Næst er haft beint samband við þann sem tilkynnir vandann til að afla frekari upplýsinga um málsatvik, þau skráð niður og næstu skref ákveðin í samráði við þann sem tilkynnir og framkvæmdastjóra. Sá sem tilkynnir vanda er boðinn stuðningur og leiðsögn ráðgjafa, aðkomu sáttamiðlara og ef um mjög alvarlegt atvik er að ræða þarf mögulega að meta það hverskonar stuðning og inngripa er þörf á frá NPA miðstöðinni. Í einhverjum tilvikum getur reynst nauðsynlegt að réttindagæslumaður fatlaðs fólks hafi aðkomu að málum sem snúa að fötluðu fólki. Þá gætu einnig persónulegir talsmenn verkstjórnenda þurft að hafa aðkomu að tilteknum málum, eftir því sem við á.Yfirleitt er reynt að leita sátta málsaðila nema í þeim tilvikum þar sem talið er að um lögbrot sé að ræða eða málið álitið það alvarlegt að sáttaleið er talin ófær. Í einhverjum tilvikum gæti þó reynst tilkynnanda nóg að fá leiðsögn og tækifæri til að ræða málin og stundum nást ekki sættir þrátt fyrir að sátta sé leitað. Í slíkum tilvikum gæti stjórn NPA miðstöðvarinnar þurft að koma að málinu til að leiða það til lykta. Það ræðst af eðli máls og vilja tilkynnanda, hvort viðkomandi fái stuðning og leiðsögn ráðgjafa, aðstoð sáttamiðlara, meðferð hjá sálfræðingi eða í erfiðum málum, hvort stjórn NPA miðstöðvarinnar þurfi að koma að úrvinnslu málsins.

Gildi
Jafnrétti
  1. Allir aðilar sem koma að NPA miðstöðinni virða grundvallarréttindi einstaklingsins, heiður og sjálfsákvörðunarrétt. Verkstjórnendur, aðstoðarfólk og starfsfólk skrifstofu skulu virða hæfni, skyldur og ábyrgð hvers annars.
  2. Við mismunum ekki fólki, til dæmis vegna andlegrar og líkamlegrar getu, aldurs, kynferðis, kynþáttar, kynhneigðar, þjóðernis, tungumála, trúarbragða eða skoðana. Ofbeldi, einelti og áreitni er aldrei réttlætanlegt og við erum á varðbergi gagnvart einkennum þess, hvort heldur sem er í beinum samskiptum eða á netinu. Við leyfum ekki mismunun, þó til staðar séu fjölskyldutengsl eða önnur sambærileg  persónuleg tengsl.
  3. Við höfum ávallt hugmyndafræðina um sjálfstætt líf að leiðarljósi og virðum frelsi verkstjórnenda í daglegu lífi. Við viðurkennum rétt einstaklinga til að gagnrýna með háttvísi og til að halda fram óvinsælum eða umdeildum skoðunum.
Virðing
  1. 4. Við virðum einstaklingsrétt allra hlutaðeigandi aðila í tengslum við NPA miðstöðina, vinnum saman af heilindum og forðumst að láta persónuleg tengsl eða hagsmuni hafa áhrif þar á. Starfsfólk kappkostar að vera til fyrirmyndar um gæði og fagleg vinnubrögð, gegnir störfum sínum af metnaði, heiðarleika og virðingu, með lýðræðislegar grundvallarreglur og mannréttindi að leiðarljósi.
  2. 5. Hlutaðeigandi aðilar starfa í samræmi við og innan þeirra takmarka sem hæfni, menntun, þjálfun og reynsla setur viðkomandi. Við gerum okkur grein fyrir starfsskyldum, styrkleikum og takmörkunum og virðum mörk allra aðila. Komi upp aðstæður þar sem yfir mörk okkar er farið leitum við faglegrar aðstoðar og stuðnings  hjá NPA miðstöðinni.
  3. 6. Verkstjórnendur skulu hafa skýrar og aðgengilegar upplýsingar um helstu verkefni og viðmið í starfi aðstoðarfólks. Komi upp aðstæður utan starfslýsingar skal eiga sér stað virðingarríkt samtal þar sem báðir aðilar fá að deila sinni skoðun áður en út í verkið er farið.
  4. 7. Einnig er það hlutverk verkstjórnanda að gæta þess að vaktaplön, vinnuskýrslur, hvíldartími og önnur kjaramál aðstoðarfólks séu í samræmi við gildandi kjarasamninga og lög og reglur vinnumarkaðarins. Verkstjórnendur geta leitað til ráðgjafa NPA miðstöðvarinnar varðandi vafamál.
  5. 8. Aðstoðarfólk áttar sig á að starfið er margslungið og geta uppákomur í starfinu varðað allt sem upp getur komið í daglegu lífi verkstjórnanda. Aðstoðarfólk skal kynna sér og starfa samkvæmt starfslýsingu sem samin hefur verið af verkstjórnanda og áherslum hans hverju sinni.
  6. 9. Við störfum í anda virðingar fyrir fólki, umhverfi og verðmætum. Við förum vel með það fjármagn sem okkur er falið að ráðstafa á tiltekinn hátt í NPA starfseminni og önnur verðmæti allra hlutaðeigandi aðila. Sérstaklega gætum við þess að nota ekki eignir annarra, hvort sem er veraldlegar eigur, hugverk eða hugvit í eigin þágu.
Ábyrgð
  1. Við förum varlega með þá ábyrgð og vald sem við höfum í höndum og vinnum að því að stuðla að trausti og öryggi okkar og annarra. Við erum heiðarleg, traustverðug, áreiðanleg og virðum viðkvæmar upplýsingar og trúnaðarupplýsingar allra.
  2. Við leggjum áherslu á að tryggja öryggi, mörk og vellíðan verkstjórnenda, aðstoðarverkstjórnenda, aðstoðarfólks, starfsfólks NPA miðstöðvarinnar. Ef upp koma aðstæður þar sem hallar á öryggi, mörk eða vellíðan fólks, ber viðkomandi að ræða það við næsta yfirmann eða ráðgjafa NPA miðstöðvarinnar.
  3. Við leggjum áherslu á að tryggja öryggi, mörk og vellíðan verkstjórnenda, aðstoðarverkstjórnenda, aðstoðarfólks, starfsfólks NPA miðstöðvarinnar. Ef upp koma aðstæður þar sem hallar á öryggi, mörk eða vellíðan fólks, ber viðkomandi að ræða það við næsta yfirmann eða ráðgjafa NPA miðstöðvarinnar.
  4. Trúnaður nær til alls þess sem aðstoðarfólk verður áskynja í starfi sínu sem varðar verkstjórnanda, fjölskyldu hans, vini eða aðra sem honum tengjast. Aðstoðarfólk gefur ekki upp upplýsingar um verkstjórnanda sinn til annarra, nema verkstjórnandi hafi óskað eftir því. Aðstoðarfólki er ekki heimilt að miðla, án leyfis, myndum, myndböndum eða hljóði af verkstjórnanda eða nærumhverfi hans. Trúnaður nær þó ekki til hegðunar verkstjórnanda sem felur í sér brot á siðasáttmála þessum eða réttinda aðstoðarfólks í starfi sbr. ákvæði í sérkjarasamning NPA miðstöðvarinnar og Eflingar. Jafnframt nær trúnaðarskyldan ekki til ofbeldis eða annarra lögbrota sem aðstoðarfólk kann að verða áskynja um í starfi sínu. Slík tilvik skal tilkynna til NPA miðstöðvarinnar sem allra fyrst.  Aðstoðarfólk getur ávallt leitað til ráðgjafa NPA miðstöðvarinnar með ráðgjöf um trúnaðarskyldu sína. Sömuleiðis gilda ekki almenn viðmið um trúnað í starfi ef verkstjórnandi verður ófær um að tjá sig eða gefa fyrirmæli í neyðaratvikum, t.d. vegna slyss eða skyndilegra alvarlegra veikinda. Það er á ábyrgð verkstjórnanda að ræða við aðstoðarfólk um viðeigandi viðbrögð í neyðaratvikum sbr. einstaklingsbundið áhættumat og viðbragðsáætlun.
  5. Í áhættumati og viðbragðsáætlunum verkstjórnanda skal koma fram hvað gera skuli þegar heilsu eða öryggi verkstjórnanda er stefnt í hættu og verkstjórnandi er í þeim aðstæðum að hann geti ekki gefið fyrirmæli um það. Það geta komið upp aðstæður þar sem aðstoðarmaður þarf að mega gefa upp trúnaðarupplýsingar um verkstjórnanda.
Samvinna
  1. Við komum ávallt fram af heiðarleika og heilum hug og stuðlum að því að aðrir geri slíkt hið sama.
  2. Við vitum að málefnaleg gagnrýni á ætíð rétt á sér, þar með talin gagnrýni á eigin hegðun. Við temjum okkur málefnaleg og heiðarleg skoðanaskipti og höfum ávallt virðingu að leiðarljósi í öllum samskiptum.
  3. Verkstjórnendur skulu gæta þess að halda persónulegu aðstoðarfólki upplýstu, eftir bestu getu, af virðingu við alla aðila. Verkstjórnendur skulu leggja sig fram við að upplýsa aðstoðarfólk sitt um helstu verkefni og þær breytingar sem verða þar á. Einnig skal NPA miðstöðin miðla öllum nauðsynlegum upplýsingum áfram til viðeigandi aðila. Að sama skapi skal aðstoðarfólk gæta þess að upplýsa verkstjórnendur sína um allar þær upplýsingar sem þeim eru viðeigandi.
  4. Verkstjórnendur, persónulegt aðstoðarfólk og starfsfólk NPA miðstöðvarinnar skal leggja sig fram við að viðhalda faglegri hæfni í starfi sínu og bæta hana eftir fremsta megni. NPA miðstöðin skal sjá til þess að allir hlutaðeigandi aðilar fái nægjanlega fræðslu og undirbúning til að sinna starfi sínu af heilindum.
Fagmennska í starfi
  1. Ætlast er til að vinnusamband verkstjórnanda og aðstoðarfólks einkennist af fagmennsku. Það þýðir að bæði verkstjórnandi og aðstoðarmaður haldi vinnusambandi sínu á faglegum nótum og fari ekki fram á hluti eða setji hvort annað í aðstæður sem teljast vera á skjön við starfslýsingar eða almennt ráðningarsamband milli yfirmanns og starfsfólks.
  2. Verkstjórnendur og aðstoðarfólk skulu á hverjum tíma vera hæfir til þess að sinna hlutverki sínu gagnvart hvort öðru og þar af leiðandi eiga góð samskipti í vinnusambandinu.
  3. Fólk er hvatt til að leita til NPA miðstöðvarinnar ef grunur er um siðavanda í vinnusambandi.
  4. Verkstjórnandi og aðstoðarverkstjórnendur koma fram fyrir hönd NPA miðstöðvarinnar sem vinnuveitanda og því er mikilvægt að þessir aðilar virði þær skuldbindingar sem miðstöðin hefur gert (og eru innifalin í félagsaðildarsamningi).

Siðasáttmáli þessi var samþykktur á fundi stjórnar NPA miðstöðvarinnar þann 7.apríl 2022, kynntur á  félagsfundi 11. maí 2022 og borinn undir aðalfund 28. maí 2022.