Leita
Stækka letur
Hlusta

Að ferðast með aðstoð

Sjá skjalasafn

Þegar þú ferðast og tekur aðstoðarfólk með í ferðina er mikilvægt að þú undirbúir þig og ferðina vel. Það getur verið að mörgu að hyggja í upphafi, en þetta verður auðveldara eftir hvert skipti.

Hvert ertu að fara og hversu lengi verður þú í burtu?

Það fyrsta sem þú þarft að hugsa um er hvert þú ert að ferðast. Kannski er það heimsókn til ættingja eða náins vinar í öðrum landshluta. Kannski er það vinnuferð til annars Evrópulands eða ævintýraferð hinumegin á hnettinum.

Þegar þú veist hvert þú vilt fara þarft þú líka að hugsa um hve lengi þú ætlar að vera í burtu. Nokkra daga, viku, mánuð eða hálft ár?

Samkvæmt lögum mátt þú vera í öðru landi í mesta lagi í sex mánuði á ári. Ef þú ert lengur í burtu getur þú misst ákveðin réttindi hér á landi, þar á meðal notendastýrða persónulega aðstoð. Skoðaðu samninginn þinn vel og athugaðu hjá sveitarfélaginu þínu hvað á við í þínu tilviki.

Samkvæmt lögum mátt þú vera í öðru landi í mesta lagi í sex mánuði á ári.
Ef þú ert lengur í burtu getur þú misst ákveðin réttindi hér á landi, þar á meðal notenda- stýrða persónulega aðstoð.

Hvaða aðgengisþarfir ert þú með?

Næsta skref fyrir ferðina er að kanna framboð og hvað er laust. Aðgengi er sjaldnast eins sérsniðið og það er heima hjá þér, en margt er hægt að leysa og útfæra. Oft má finna upplýsingar um áfangastaði á netinu, hjá sendiráðum, ferðaskrifstofum og hjá ýmsum samtökum fatlaðs fólks.

Hugsaðu um hvaða þarfir þú hefur til þess að hlutirnir virki fyrir þig. Athugaðu alltaf vandlega framboð á hótelherbergjum – tvisvar! Spurðu ákveðinna og skýrra spurninga með tölvupósti eða í gegnum síma. Er herbergið og baðherbergið nægjanlega stórt? Er mögulegt að endurraða húsgögnum eða endurinnrétta ef þörf er á? Er möguleiki á að bóka herbergi á tiltekinni hæð eða nálægt lyftu? Spurðu um ljósmyndir og mál.

Algengt er að hægt sé að nálgast algeng verkfæri og búnað, t.d. hjálpartæki, til láns, en þú gætir einnig þurft að hafa nokkur tæki og verkfæri meðferðis. Víða er hægt að leigja hjálpartæki. Það getur verið gott að leigja ef þig vantar stór og þung hjálpartæki, svo sem lyftu eða rafskutlu.

Það er ekkert sem segir að tiltekið aðstoðarfólk eigi meiri rétt á að fylgja þér í ferðina en annað.

Hversu margt aðstoðarfólk þarft þú með í ferðina?

Þegar þú veist hvert þú ert að fara, hversu lengi þú verður og hvernig aðgengi lítur út getur þú byrjað að hugsa um fjölda aðstoðarfólks og hvaða einstaklinga þú ættir að hafa með í ferðina. Því færri einstaklingar, því ódýrara verður það, en að vera með of fáa í hópi aðstoðarfólks getur einnig verið vandamál. Þú verður alltaf að fylgja reglum um vinnutíma og hvíld, en hafðu í huga að jaðarinn gæti verið öðruvísi á ferðalögum. Aðstoðarfólk gæti orðið þreyttara en venjulega á ferðalögum, eða jafnvel veikst. Þú getur jafnvel þurft að tvöfalda aðstoðina stundum. Þetta er þitt ferðalag og þú ættir ekki að láta það hindra þig að aðstoðarmaður er ekki í góðu líkamlegu formi. Ef þú hefur þörf á tvöfaldri aðstoð, en þú hefur ekki fjármagn fyrir því, þá getur þú haft samband við skrifstofu NPA miðstöðvarinnar til að finna lausn.

Það er undir þér komið hvaða fólk þú velur að taka með þér sem aðstoðarfólk. Þú getur tekið þá með þér sem vinna hjá þér daglega, eða fólk sem vinnur aðeins meðan á ferðinni stendur. Ef þú velur að taka ættingja eða annan nákomin sem aðstoðarmanneskju verða viðkomandi í sumum tilfellum að vera skattlagðir vegna ferðarinnar. Lestu meira um það undir fyrirsögninni „Skattahlunnindi á ferðalögum.

Það er ekkert sem segir að tiltekið aðstoðarfólk eigi meiri rétt á að fylgja þér á ferðalögum en annað.

Aðstoðarfólk getur verið frábært í sínu hlutverki heima við og í þínu daglega lífi, en alls ekki þegar þú ert á ferðalögum. Kannski er þörf á meiri líkamlegum styrk þar sem það eru ekki sömu hjálpartæki til staðar og heima hjá þér. Þú gætir þurft aðstoðarfólk sem þekkir þig mjög vel og getur hjálpað þér að takast á við ókunnar aðstæður. Mögulega vilt þú líka bara fá frí frá því aðstoðarfólki sem starfar hjá þér reglubundið.

Breyting á vaktaplani fyrir aðstoðarfólk sem ekki kemur með í ferðina

Ef þú velur að taka aðstoðarfólk með í ferðina sem vinnur ekki samkvæmt vaktaplani verður þú að leysa vinnustundir þeirra sem hefðu annars átt að vinna þann tíma sem þú ert á ferðalagi. Ef viðkomandi taka frí (leyfi), skráir þú það sem orlof. Að öðru leyti þurfa viðkomandi að vinna upp tímana sína fyrir eða eftir ferðalagið. Slíkar breytingar verða þó að vera innan þess tímabils sem leyfilegt er að sveigja vaktir milli launatímabila. Sjá nánar í kaflanum í „Að setja vaktaplan“. Í öllu falli verður þú að greiða aðstoðarfólki þínu laun í samræmi við ráðningarsamning þess, – þó þú náir ekki að skipuleggja vaktirnar þeirra. Ef þú verður í burtu í langan tíma, getur verið nauðsynlegt að segja upp því starfsfólki sem verður eftir. Það ætti þó aðeins að gera í undantekningartilvikum.

Dæmi um breytingu á vaktaplani er þegar þú ferðast og velur að aðstoðarfólkið sem fylgir þér í ferðina felli niður sínar vaktir fyrir og eftir ferðina. Það aðstoðarfólk sem ekki fylgir þér tekur þá vaktir í staðinn fyrir þær sem hefðu átt að vera samkvæmt áætlun á meðan ferðinni stendur. Af öllu þessu má ráða að gott er að byrja undirbúning og skipulagningu langra ferðalaga með góðum fyrirvara.

Nægjanlega margar vinnustundir og nægur peningur?

Venjulega þarft þú fleiri vinnustundir frá aðstoðarfólki þínu á ferðalögum en þú þarft alla jafna. Vertu viss um að ferðaáætlunin þín geri ráð fyrir nægjanlega mörgum vinnustundum aðstoðarfólks á meðan á ferðalaginu stendur. Ef þú ert ekki með nægjanlega margar vinnustundir getur þú þurft að safna vinnustundum fyrir ferðina. Þú getur einnig sótt um fleiri vinnustundir hjá sveitarfélagi þínu. Ef sveitarfélagið samþykkir ekki fleiri tíma, getur þú haft samband við NPA miðstöðina til að kanna hvort við getum aðstoðað þig við að leysa málið.

Þegar þú veist vinnustundafjöldann sem þú þarft í ferðina getur þú fundið út hvað ferðin kostar miðað við þær vaktir sem þú skipuleggur á meðan ferðinni stendur. Síðan skalt þú kanna fjárhagsstöðuna þína. Áttu næga innistæðu fyrir ferðinni, með tilliti til launakostnaðar aðstoðarfólks, eða þarft þú að bíða þar til þú hefur safnað meira fjármagni?

Athugaðu að þú gætir átt rétt að sækja um í ákveðna sjóði til að standa straum af ákveðnum kostnaði við ferðina.

Bókaðu ferðina

Nú getur þú bókað ferðina. Þú getur annað hvort bókað í gegnum ferðaskrifstofu eða jafnvel bókað allt sjálf/ur/t. Þú færð ákveðið svigrúm og þjónustu ef þú ákveður að bóka í gegnum ferðaskrifstofu, en þú missir líka ákveðna stjórn á hlutunum.

Hafðu í huga að aðstoðarfólkið þitt þarf ekki að dvelja á sama hóteli og þú og þú getur til dæmis reynt að finna ódýrari gistingu fyrir það í nágrenninu. Það fer algjörlega eftir þínum þörfum, en það getur verið góð lausn til að spara peninga og fá hlé hvort frá öðru um stund.

Tilgreinið alltaf stærð og þyngd hjálpartækja. Stundum eru flugfélög, lestar eða bátar með takmarkanir fyrir því hversu stóra hluti hægt er að taka með sér um borð. Bókaðu einnig aðstoðina sem þú getur þurft frá flutningsfyrirtækinu.

Það er þægilegt að hafa allar samgöngur bókaðar áður en þú kemur á staðinn. Það skapar einnig öryggi og þú getur verið viss um að ferðaleiðin þín sé aðgengileg fyrir þig, ef þú hefur gengið úr skugga um og látið vita af þínum aðgengisþörfum. Athugaðu að gæta þess að öllum hjálpartækjum þínum sé rétt pakkað og að þau passi þar sem þau þurfa að fara. Margir NPA notendur kjósa að prenta út leiðbeiningar um hvernig eigi að taka hjálpartæki í sundur, eða undirbúa þau fyrir flutning og líma þær á hjálpartækið, til að fyrirbyggja að starfsmenn flutningsfyrirtækja fari illa með eða skemmi hjálpartækin þín.

Prentaðu alltaf út allar bókunarstaðfestingar fyrir ferðina.

Tryggingar, vegabréfsáritanir og bólusetningar

Athugaðu alltaf hvaða tryggingar þú ert með og hvaða tjóni þær standa undir. Þú gætir þurft að endurskoða þín tryggingamál og bæta við tryggingum í einhverjum tilvikum. Ef þú greiðir með kreditkorti eru flest kreditkort með góðar ferðatryggingar. Kynntu þér ferðatryggingarnar sem þú ert með hjá þínu kreditkortafyrirtæki.

Oft geta komið upp óvænt atvik og ófyrirséðar aðstæður sem setja allar ferðaáætlanir þínar í hættu. Góð regla er því að greiða aukalega fyrir það að geta afbókað ferðina. Annars er hætta á að þú getir ekki fengið endurgreitt ef þú kemst ekki í ferðina af einhverjum ástæðum.

Þú þarft vegabréfsáritanir og bólusetningar til að fara til sumra landa. Þú getur notað starfsmannakostnaðinn til að greiða fyrir vegabréfsáritanir og bólusetningar fyrir aðstoðarfólk.

Ef þú ert á ferðalagi í Evrópu verður þú að tryggja að þú og aðstoðarfólkið þitt séuð með evrópska sjúkratryggingakortið. Þú getur pantað það frá Sjúkratryggingum Íslands, www.sjukra.is. Ef þú veikist í ferðinni færðu ókeypis læknishjálp ef þú sýnir kortið.

Athugaðu hvort allir hafi gilt vegabréf sem gildir út og sex mánuði fram yfir ferðina ef þú ferð til útlanda. Sum lönd gera kröfu um slíkan gildistíma.

Gerðu samning við aðstoðarfólk og vaktaplan fyrir alla ferðina

Á meðan ferðinni stendur vinnur aðstoðarfólkið þitt líklega á öðrum tíma en það gerir venjulega. Oft vinnur það líka fleiri vinnustundir. Þess vegna þarft þú að gera sérstakt vaktaplan fyrir ferðina. Þetta er mjög mikilvægt. Hugsaðu um hvað þú átt eftir að vilja gera á meðan ferðinni stendur og gerðu áætlun í samræmi við það. Það gæti vel verið að þú þurfir á aðstoð frá tveimur aðstoðarmönnum á ákveðnum tímum.

Það fer eftir eðli ferðarinnar sem þú ert í hvort það er flókið eða erfitt að setja niður nákvæma ferðaáætlun fyrirfram. Vinnustundirnar sem þú þarft í aðstoð fara stundum eftir hlutum sem þú veist ekki alltaf fyrirfram. Þrátt fyrir það þá mun aðstoðarfólkið þitt kunna að meta og jafnvel þurfa á því að halda að vita hvenær það á að vera að vinna og hvenær það á lausa stund. Þú gætir einnig þurft að útskýra fyrir aðstoðarfólkinu þínu að vaktaplanið getur breyst ef eitthvað óvænt gerist, svo sem veikindi. Því meira sem þú undirbýrð þitt aðstoðarfólk, því minni hætta er á árekstrum á meðan á ferðinni stendur.

Áður en þú ferð í ferðina skaltu gera samning við aðstoðarfólkið sem fer með þér. Í samningnum á að koma fram fjöldi vinnustunda þess og vinnutímabilið, hvenær almennt aðstoðarmenn fá hvíld eða pásur og hvaða kostnaður er greiddur fyrir aðstoðarfólkið. Mikilvægt er að samið sé um ferðatilhögunina með mjög skýrum hætti sem og greiðslur á meðan á ferðalaginu stendur . Best er að taka fram að allur ferðakostnaður sé greiddur af verkstjórnanda, allar samgöngur, gisting og þrjár máltíðir á dag. Einnig er oft gott að taka fram að aðstoðarfólk fái einnig smá vasapening daglega.

Athugaðu að vaktaplanið og samningurinn verður að fylgja vinnutímalögunum. Lestu meira um reglurnar í kaflanum um „Vinnutími og fyrirkomulag vakta“. Ef þú ert ekki viss um hvernig á að gera samning um ferðatilhögun sem er í samræmi við allar reglur getur þú haft samband við ráðgjafa þinn hjá NPA miðstöðinni.

Undirbúðu aðstoðarfólk fyrir ferðina

Áður en lagt er af stað í ferðina er mjög mikilvægt að þú undirbúir aðstoðarfólkið þitt fyrir ferðina og það sem á við á meðan ferðinni stendur.

Fyrst þarft þú að skrifa undir samning um ferðatilhögun og greiðslu kostnaðar. Í samningnum skal koma fram hvernig viðkomandi aðstoðarfólk mun vinna og allt varðandi greiðslu kostnaðar á meðan ferðinni stendur. Þú getur fundið dæmi um samning um ferðatilhögun hér að neðan. Það er gagnlegt að fá ráðgjafa NPA miðstöðvarinnar til að lesa yfir samninginn áður en hann er undirritaður af þér og viðkomandi aðstoðarfólkii.

Aðstoðarfólkið þitt getur fengið dagpeninga í ferðinni. Það eru skattfrjálsir peningar sem eru notaðir til að borga fyrir mat og annað. Ef þú greiðir dagpeninga fyrir aðstoðarfólk, átt þú ekki að greiða fyrir máltíðir aðstoðarfólksins. Ættingjar og nákomnir eiga ekki að fá greidda dagpeninga í skemmti- eða fjölskylduferðum með þér (þú getur lesið meira um það í kaflanum „Skattahlunnindi á ferðalögum“).

Æskilegast er að þú gerir samning við þitt aðstoðarfólk um ferðatilhögun og greiðslu kostnaðar í ferðinni. Þá getur þú nýtt starfsmannakostnaðinn til að greiða fyrir ferðakostnað viðkomandi aðstoðarfólks sem fer með þér í ferðina. Undir það fellur meðal annars gisting, samgöngur, máltíðir og vasapeningur á meðan ferðinni stendur. Ef þú nærð ekki samkomulagi við aðstoðarfólkið, eða gleymir því að gera samkomulag getur aðstoðarfólkið þitt átt rétt á að fá dagpeninga greidda á meðan ferðinni stendur. Þú getur einnig ákveðið að greiða dagpeninga í stað þess að leggja út fyrir ferðakostnaðinum sjálf/ur/t.

Dagpeningar eru ákvarðaðir af ferðakostnaðarnefnd ríkisins hverju sinni. Til þess að aðstoðarfólk fái greidda dagpeninga verður þú að leggja fram gögn um ferðina. Dagpeningar koma fram á launaseðli aðstoðarfólks, en þú nýtir þó almennt séð framlag til starfsmannakostnaðar til að greiða dagpeninga. Þú getur lesið meira um dagpeninga á vefsíðu Skattsins: https://www.rsk.is/einstaklingar/tekjur-og-fradraettir/dagpeningar/ og á vefsíðu Stjórnarráðsins: https://www.stjornarradid.is/verkefni/mannaudsmal-rikisins/kjarasamningar-laun-og-starfskjor/ferdakostnadur/

Útskýrðu fyrir aðstoðarfólkinu þínu hvernig þú vilt fá aðstoð þína í ferðinni og hvernig viðkomandi eigi að haga sér. Það er mikilvægt að hafa það skýrt fyrir aðstoðarfólkinu að það er í vinnuferð, jafnvel þó þú sért í fríi eða í vinnuferð sjálf/ur/t. Þú ættir að fara yfir vinnuumhverfið á meðan á ferðinni stendur og láta aðstoðarfólkið þitt vita að það sé ekki endilega eins og það er heima hjá þér. Það getur verið erfitt að giska á allt sem getur komið upp á ferðalagi og þess vegna er gott að þú undirbúir aðstoðarfólk einnig undir óvissu og að hlutirnir geti breyst. Það getur verið öruggara að skrifa niður allt sem þú veist fyrirfram, til dæmis það sem hefur komið upp áður, og bera undir það aðstoðarfólk sem fer með þér í ferðina.

Veitið aðstoðarfólki tengiliðaupplýsingar um hótelið sem þið gistið á ásamt upplýsingum um ferðaskrifstofu (ef það á við), svo ættingjar aðstoðarfólks geti náð í aðstoðarfólkið þitt eins og þig.

Var kaflinn hjálplegur?
Thank you! Your submission has been received!
Oops! Something went wrong while submitting the form.

Kaflayfirlit