Þessi kafli fjallar um launakjör aðstoðarfólks og endurskoðun launa. Í þessum hluta eru tekin dæmi og ýmis verkfæri gefin til að hafa yfirsýn yfir laun og launaliði þíns aðstoðarfólks. Hafðu samband við skrifstofu NPA miðstöðvarinnar ef það er eitthvað sérstakt sem þú vilt vita eða fara sérstaklega yfir varðandi laun aðstoðarfólks.
NPA miðstöðin er með kjarasamning við Eflingu og Starfsgreinasambandið og við fylgjum þeim kjarasamningum. Samkvæmt lögum má ekki semja um lakari kjör en samningurinn kveður á um og í raun má ekki semja um aðra tilhögun á vinnutíma, ráðningarkjörum eða öðrum þáttum, nema það sé bersýnilega til hagsbóta fyrir aðstoðarmanninn.
Samkvæmt kjarasamningi okkar er launatafla í gildi fyrir NPA aðstoðarfólk. Launataflan hækkar skv. ákvæðum kjarasamningsins, að jafnaði árlega, samhliða launahækkunum á almennum vinnumarkaði. Það gerist sjálfkrafa og þú þarft ekki að gera sérstakar ráðstafanir aðrar en þær að fylgjast með. NPA miðstöðin reynir að sækja hækkun á framlagi frá sveitarfélögum um leið og laun aðstoðarfólks hækka.
Launatafla aðstoðarfólks kveður á um launaþrep sem ráðast af því hve lengi aðstoðarfólk hefur unnið.
Aðstoðarfólk hjá NPA miðstöðinni fær laun eftir því hversu margar vinnustundir það vinnur. Þetta á við óháð því hvert ráðningarformið er. Þú og aðstoðarfólkið þitt samþykkið tiltekið vaktaplan í hverjum mánuði sem þú skipuleggur í samræmi við starfshlutfall hvers og eins. Í lok hvers launatímabils sendir þú svo NPA miðstöðinni vinnuskýrslur fyrir hverja aðstoðarmanneskju og miðstöðin greiðir laun fyrir unna tíma skv. vinnuskýrslu.
Aðstoðarfólkið þitt fær greidd út laun síðasta virka dag hvers mánaðar, en launatímabilið er frá 21. hvers mánaðar til 20. hvers mánaðar.
THversu margar vinnustundir aðstoðarfólks hefur þú sem verkstjórnandi úr að spila?
Þegar þú gerir ráðningarsamninga við aðstoðarfólk gerir þú samkomulag við aðstoðarfólk þitt um laun og launakjör samkvæmt kjarasamningnum. Þið sammælist jafnframt um það hvaða starfshlutfalli viðkomandi einstaklingur á að vera í, en umreikna þarf starfshlutfallið yfir í vinnustundir. Þegar þú hefur umreiknað starfshlutfallið veist þú hvað þú þarft að skipuleggja margar vinnustundir á aðstoðarmanneskjuna.
Samkvæmt kjarasamningi er eftirfarandi gildandi launatafla fyrir störf NPA aðstoðarfólks (uppfært 1. maí 2022). Launataflan sýnir dagvinnugrunn fyrir hverja unna vinnustund, yfirvinnukaup og svo mismunandi álög.
Gott er að hafa í huga að álag samkvæmt töflunni sýnir álag ofan á hverja vinnustund á viðkomandi álagstímum og bætist þá upphæðin við dagvinnugrunninn. Dæmi: Tímakaup fyrir dagvinnu á 55% álagi í 1. árs launaþrepi væri þá 4.039 kr. (2.606 + 1.433). Yfirvinnukaupið er birt í heildsinni, þ.e. ekki sem álag.
Í vaktavinnu greiðist álag á þann hluta vinnutíma sem fellur utan dagvinnutímabils. Álagið reiknast ofan á dagvinnutaxta:
Dagvinnutaxti er á tímabilinu frá 8:00 til 17:00 mánudaga til föstudaga.
33,33% álag á tímabilinu frá kl. 17:00 til kl. 24:00 mánudaga til fimmtudaga (kvöldvinna á virkum dögum).
55% álag á tímabilinu frá kl. 17:00 til 00:00 á föstudögum (kvöldvinna á föstudögum).
55% álag frá kl. 08:00 til 24:00 á laugardögum og sunnudögum (helgarvaktir).
65% álag er á tímabilinu frá kl. 00:00 til 08:00 þriðjudaga til föstudaga (næturvinna á virkum dögum).
75% álag er á tímabilinu frá kl. 00:00 til kl. 08:00 laugardaga, sunnudaga og mánudaga (næturvinna um helgar).
Vinna á helgidögum og stórhátíðardögum fer ýmist eftir 55% álagi og 75% álagi á næturna eða 90% álagi og 120% álagi á næturna, skv. grein 3.5 og 3.6 í kjarasamningi.
Hvíldarvaktir greiðast svo eingöngu á dagvinnutaxta.
Aðstoðarfólk í vaktavinnu, sem og annað vaktavinnufólk, ber vinnuskyldu til að taka vaktir á almennum frídögum og stórhátíðardögum. Fyrir það fær aðstoðarfólk greitt sérstakt álag ásamt vetrarolofi. Lestu meira um vetrarorlof undir fyrirsögninni „Vetrarorlof“.
THversu margar vinnustundir aðstoðarfólks hefur þú sem verkstjórnandi úr að spila?
Á almennum frídögum er greitt 55% álag, þ.e. sama álag á við um helgar- og næturvinnu. Til almennra frídaga teljast:
Á stórhátíðardögum er greitt 90% álag en 120% álag er greitt á milli kl. 16:00 og 24:00 og á milli kl. 00:00 og 08:00 á jóladag og nýársdag. Til stórhátíðardaga teljast:
THversu margar vinnustundir aðstoðarfólks hefur þú sem verkstjórnandi úr að spila?
Vaktir skulu almennt ekki vera lengri en 12 klst. og ekki skemmri en 3 klst. Hinsvegar er heimilt að skipuleggja sólarhringsvaktir samkvæmt sér-kjarasamningi, ef hægt er að uppfylla ákveðin skilyrði. Þú getur lesið meira um hvíldarvaktir í kaflanum „Hvíldarvaktir“.
Á hvíldarvöktum gilda sérstakar reglur. Fyrir þann tíma sem telst hvíld á vöktum er greiddur dagvinnutaxti. Ef hvíld er rofin er greitt viðeigandi álag til viðbótar við dagvinnutaxta fyrir þann tíma sem unnið er eða amk. ein klukkustund. Þetta þýðir að þú ferð að sofa kl. 02:00 á þriðjudegi greiðir þú aðstoðarmanni þínum 65% álag frá miðnætti til kl. 02:00 og eftir það tekur dagvinnutaxtinn við. Ef þú vaknar svo kl. 04:00 og þarft aðstoð greiðir þú aðstoðarmanni þínum amk. eina klukkustund með 65% álagi. Ef þú vaknar aftur kl 10:00 og þarft aðstoð en heldur svo áfram að sofa er ekkert álag greitt, enda er þá ekki álag á dagvinnu.
Athugið að huga þarf sérstaklega að því að tryggja fullnægjandi hvíld aðstoðarfólks á hvíldarvöktum svo þær teljist til hvíldarvakta. Lesið vel kaflann um hvíldarvaktir og skoðið dæmin þar.
Tvisvar á ári fær aðstoðarfólk greidda eingreiðslu ofan á launin sín. Þetta eru orlofsuppbót og desemberuppbót.
Orlofsuppbót er greidd út í lok maí. Hún nemur 53.000 kr. fyrir hverja aðstoðarmanneskju sem er í fullu starfi fyrir árið 2022 en hækkar lítillega að jafnaði á ári hverju. Orlofsuppbótin er greidd út í hlutfalli við hversu mikið aðstoðarfólk hefur unnið, þannig að aðstoðarfólk í hlutastörfum fær lægri orlofsuppbót en það sem er í fullu starfi.
Desemberuppbótin er greidd út í lok nóvember. Hún nemur 98.000 kr. fyrir árið 2022, einnig miðað við fullt starf. Desemberuppbótin hækkar einnig lítillega á hverju ári. Eins og með orlofsuppbótina þá fær aðstoðarfólk greidda desemberuppbót í hlutfalli við hversu mikið það hefur unnið.
Mikilvægt er að þú passir uppá að eiga fyrir orlofs- og desemberuppbótum ár hvert og gerir ráð fyrir þessum viðbótarkostnaði í þinni skipulagningu.
Aðstoðarfólk, eins og annað starfsfólk sem vinnur vaktavinnu, á ekki rétt á föstum matarhléum heldur koma pásur og matartímar inn í vinnuna þegar því verður komið við. Þess vegna fær fólk í vaktavinnu greitt sérstakt álag ofan á launin sín, svokallað "Persónulegur tími".
Persónulegur tími samsvarar 5 mínútum á yfirvinnukaupi fyrir hvern unninn klukkutíma. Persónulegur tími getur því numið frá 343 kr. og upp í 372 kr. ofan á laun samkvæmt launatöflunni fyrir hverja vinnustund.
Starfsfólk í vaktavinnu ber vaktaskyldu og vaktir þeirra geta lent á skilgreindum rauðum dögum, það er stórhátíðardögum og almennum frídögum. Starfsfólk í vaktavinnu getur þannig þurft að vinna á þessum dögum ef vaktir þess falla á fyrrgreinda daga. Kjarasamningurinn gerir því ráð fyrir að starfsfólk í vaktavinnu fái að taka viðbótarfrí á veturna, svokallað vetrarorlof.
Vetrarorlof felur í sér 12 vetrarfrídaga miðað við ársstarf. NPA miðstöðin hefur fram til þessa haft það fyrirkomulag á að í stað þess að aðstoðarfólk taki frí yfir veturinn, fái aðstoðarfólkið vetrarorlofið greitt út jafnóðum með laununum. Það eru því 8 klst. í dagvinnu fyrir hvern frídag og álagið nemur því 4,65% ofan á dagvinnugrunn. Það eru því 118 kr. til 128 kr. ofan á dagvinnulaun fyrir hverja unna vinnustund eftir launaþrepi.
Vetrarorlof er ekki greitt fyrir yfirvinnu eða dagvinnu í veikindum.
Kjarasamningur NPA aðstoðarfólks er nokkuð flókinn svo það getur verið vandasamt að reikna nákvæmlega út laun aðstoðarfólks án þess að vera með sérstakt bókhaldsforrit sem inniheldur allar prósentur og upplýsingar úr kjarasamningi.
Til að fá upplýsingar um laun aðstoðarfólks er best að hafa samband við ráðgjafa í síma 5678270 eða senda tölvupóst á [email protected].
Þú getur einnig skoðað eftirfarandi dæmi til þess að fá tilfinningu fyrir því hvernig launin eru reikuð út.
Aðstoðarmaður er í fullu starfi aðeins á daginn í 1. árs launaþrepi og er því með 2.660 kr. á tímann í dagvinnu. Fullt starf er 156 tímar og við finnum út að full dagvinna er því 414.960 kr. (2.660 kr. X 156). Þá bætum við persónulegum tíma og vetrarorlofi við og fáum út 56.004 kr. vegna persónulegs tíma (156 X 359) og 19.344 kr. vegna vetrarorlofs (156 X 124). Samtals nema því dagvinnulaun í 1. árs þrepi 490.308 kr. Ofan á þetta bætist svo 10,17% orlof, þannig að 49.180 kr. bætast við launin og er orlofið lagt inn á orlofsreikning.
Aðstoðarmaður er í hálfu starfi í 3. árs launaþrepi og er því með 2.715,04 kr. á tímann í dagvinnu. Hann vinnur aðra hvora helgi og svo nokkur kvöld í viku. Hálft starf eru 78 tímar. Miðað við þetta má ætla að hann vinni þá 78 dagvinnutíma, 44 af þeim eru í kvöldvinnu á mánudögum (sem er 33,33% álag) og 34 í helgarvinnu á morgnanna (sem er 55% álag). Dagvinnugrunnurinn er þannig 211.773 kr. (78 X 2.715,04). Þá bætum við persónulegum tíma og vetrarorlofi við og fáum út 28.669 kr. vegna persónulegs tíma (78 X 367,55) og 9.848 kr. vegna vetrarorlofs (78 X 126,25). Samtals nema því laun viðkomandi aðstoðarmanns 340.799 kr. að jafnaði miðað við þessar forsendur. Ofan á þetta bætist svo 10,17% orlof, þannig að 34.298 kr. bætast við launin og orlofið lagt inn á orlofsreikning.
Mikilvægt er að átta sig á því að kostnaður launagreiðanda er umtalsvert hærri en launin sem hér eru nefnd. Þarna á eftir að taka tillit til tryggingagjalds, mótframlags í lífeyrissjóði o.fl. Farið verður yfir þessa þætti í kaflanum „Að lesa launalista aðstoðarfólks“.
Ef þú hefur einhverjar spurningar varðandi útreikning launa aðstoðarfólks hafðu þá samband við ráðgjafa þinn hjá NPA miðstöðinni.
Í hverjum mánuði færð þú sendan svokallaðan launalista fyrir allt þitt aðstoðarfólk. Launalistinn er sendur úr launabókhaldi NPA miðstöðvarinnar og gefur þér yfirsýn yfir öll laun og launatengd gjöld sem miðstöðin greiðir vegna þíns aðstoðarfólks. Launalistinn inniheldur nær sömu upplýsingar og launaseðlar sem aðstoðarfólk fær í heimabanka sínum. Þannig getur þú fylgst með hvað kostar þig að greiða aðstoðarfólki þínu laun, hversu marga tíma þú nýtir í mánuðinum o.fl. Launalistinn er einnig mikilvægt tól fyrir þig til að hafa yfirsýn yfir mánuðinn og koma auga á mögulegar villur.
Svona lítur dæmigerður launalisti út:
Listinn er sundurliðaður eftir hverjum starfsmanni fyrir sig. Aftasta síðan er svo samtala fyrir alla launþegana sem starfa hjá þér. Það er þessi síða sem er send þér og sveitarfélögum í lok hvers mánaðar með rekstrarskýrslunni. NPA miðstöðin sendir ekki sundurliðun fyrir hvern starfsmann til sveitarfélaga, heldur aðeins til þín.
Þú tekur fyrst eftir því að þú sérð nafn viðkomandi starfsmanns og kennitölu hans og fyrir neðan nafnið ætti að vera tilvísun í þann launaflokk sem starfsmaðurinn tilheyrir.
Þá kemur upptalning á fjölda vinnustunda. Aðeins eru birtir þeir reitir sem við eiga þann mánuðinn, þ.e. hversu margir dagvinnutímar voru unnir í mánuðinum, hversu margir tímar voru á hvaða álagi og hvort og hversu margir tímar voru unnir vegna veikinda. Fjöldi tíma í persónulegan tíma og vetrarorlof ættu að vera jafn margir og dagvinnustundirnar. Þá ætti orlof starfsmannsins að vera tilgreint sem prósentuhlutfall. Í næsta dálki má svo sjá krónutölupphæðina fyrir hvern flokk, þ.e. dagvinna, vaktaálag, persónulegur tími, vetrarorlof, orlof, bakvakt o.s.frv.
Í reitnum við hliðina á launaupptalningunni ættir þú að sjá sundurliðun yfir það sem aðstoðarmanneskjan greiðir af launum sínum. Þarna smá sjá orlofsupphæðina sem er lögð inn á banka, iðgjaldið sem aðstoðarmanneskjan greiðir í lífeyrissjóð, félagsgjaldið sem hann greiðir í stéttarfélagið, staðgreiðsla skatta og eftirágreiddir skattar ef einhverjir eru.
Dálkurinn fyrir neðan sýnir yfirlit yfir launatengd gjöld sem NPA miðstöðin greiðir vegna starfsmannsins. Þetta eru mótframlag í lífeyrissjóð og svo greiðslur í ýmsa sjóði á vegum stéttarfélagsins og verkalýðsfélags aðstoðarmannsins, s.s. sjúkrasjóð, orlofssjóð, fræðslusjóð og endurhæfingarsjóð. Þá er tekið fram hversu mikið tryggingagjald vinnuveitandinn greiðir.
Neðst fyrir hvern starfsmann má svo sjá heildarkostnað laungreiðanda fyrir hvern starfsmann fyrir sig. Þetta er upphæðin sem greiðist af framlagi þínu til launakostnaðar fyrir hvern starfsmann. Aftasta síðan er svo samtalssíða þar sem þú sérð sömu sundurliðun, nema að þá hafa allir starfsmennirnir verið lagðir saman. Þá sérðu heildarlaunakostnaðinn þinn þann mánuðinn.
Laun aðstoðarfólks þíns hækka sjálfkrafa með tvennum hætti. Annars vegar hækka launin þegar gildandi kjarasamningar kveða á um hækkun og hins vegar eftir því sem starfsaldur aðstoðarfólks hækkar, þ.e. hækkun á launaþrepi.
Kjarasamningar ákveða laun aðstoðarfólks. Kjarasamningur NPA miðstöðvarinnar hækkar að jafnaði einu sinni á ári, líkt og flestir aðrir kjarasamningar, og hækka launin því sjálfkrafa hjá NPA aðstoðarfólki að jafnaði einu sinni á ári. Ástæðan fyrir þessari hækkun er sú að kjarasamningar eru yfirleitt gerðir til nokkurra ára í senn og kveða á um reglulega hækkun launa yfir allt tímabilið.
NPA miðstöðin tilkynnir um hækkun kjarasamninga áður en hún kemur til framkvæmda svo þú getir verið undirbúin/n.
Aðstoðarfólk hækkar einnig í launum eftir því sem það vinnur lengur. Samkvæmt kjarasamningi eru fjögur launaþrep hjá aðstoðarfólki sem öll eru tengd ákveðnum starfsaldri.
Fyrsta launaþrepið eru svokölluð byrjunarlaun. Í þann flokk falla allir þeir sem eru undir 22 ára aldri og hafa ekki starfsreynslu innan sömu starfsgreinar.
Allir sem eru yfir 22 ára og einnig þeir sem eru í byrjunarlaunaþrepi og hafa starfað í sömu starfsgrein í yfir eitt ár, fara í næsta launaþrep sem er 1. árs launaþrep.
Eftir þrjú ár í starfi fer aðstoðarfólk í næsta launaþrep sem er 3. árs launaþrep.
Síðasta launaþrepið er fyrir það aðstoðarfólk sem hefur starfað í fimm ár innan sömu starfsgreinar, þ.e. 5. árs launaþrep.
NPA miðstöðin heldur utan um hækkun launa eftir starfsaldri og lætur vita áður en aðstoðarmaður hækkar í launum vegna starfsaldurs.