Leita
Stækka letur
Hlusta

Samskipti og samstarf í NPA

Sjá skjalasafn

Mikilvægt er fyrir þig sem verkstjórnandi að átta þig á því að þú ert vinnuveitandi. Því fylgir mikil ábyrgð og það getur bæði verið flókið og erfitt hlutverk. Aðstoðarfólkið þitt eru launþegar, þú ert þeirra yfirmaður og heimilið þitt, vinafólks þíns, fjölskyldu þinnar, vinnustaður og hvar sem þú ert stödd/staddur/statt hverju sinni er vinnustaður þíns aðstoðarfólks.

Í öllum vinnusamböndum er mikilvægt að hlúa vel að samskiptum og samstarfi. Ánægt aðstoðarfólk er gott aðstoðarfólk. Mikilvægt er fyrir þig að vera sanngjörn/gjarn/gjarnt við aðstoðarfólkið þitt, koma fram við það af virðingu, gefa því skýr fyrirmæli, veita því svigrúm til að vaxa í starfinu, virða hvíldartíma þess, hrósa því og setja því sanngjarnar reglur.

Þessum kafla handbókarinnar er ætlað að gefa þér hugmyndir að þeim álitamálum sem gætu komið upp hjá þér í samskiptum þínum og samstarfi við aðstoðarfólkið þitt og við NPA miðstöðina eða sveitarfélagið þitt og hvernig þú getur leyst úr flóknum vandamálum. Þá eru einnig tillögur og hugmyndir að því hvernig þú getur bætt samstarfið þitt við aðstoðarfólkið þitt þannig að vandamál komi síður upp.

Starfsánægja aðstoðarfólks

Það er að miklu leyti undir þér komið að aðstoðarfólkið þitt sé ánægt í vinnunni. Framkoma þín við aðstoðarfólk og vinnuskilyrði þess skipta miklu máli. Starf aðstoðarfólks getur krafist mikils af því og mikilvægt að þú gerir þér grein fyrir því að það getur tekið tíma fyrir aðstoðarfólk að aðlagast starfinu. Hér reynir á þolinmæði og þína hæfileika að setja aðstoðarfólkinu fyrir góð og nákvæm fyrirmæli.

NPA miðstöðin getur aðstoðað þið við að koma hugmyndafræðinni um sjálfstætt líf inn hjá aðstoðarfólki, þannig að það skilji hvað felst í notendastýrðri persónulegri aðstoð. Margir sem eru ófatlaðir eru litaðir af ákveðnu viðhorfi til þjónustu til fatlaðs fólks og til fatlaðs fólks sjálfs og það er upp undir okkur komið að breyta því viðhorfi. Þetta viðhorf endurspeglast oft í því að líta á fatlað fólk sem hjálparlaust sem þurfi á „umönnun“ frekar en aðstoð. Það er sameiginlegt verkefni okkar allra að upplýsa aðstoðarfólk um hugmyndafræðina um sjálfstætt líf og að NPA felist í því að færa valdið frá stofnunum til fatlaðs fólks yfir eigin lífi. Vel upplýst starfsfólk skynjar betur hvernig það á að koma fram gagnvart þér og öðrum í sínu starfi, en þetta getur valdið árekstrum ef ekki er vandað til verka.

Sendu aðstoðarfólkið þitt á grunnnámskeið hjá NPA miðstöðinni um hugmyndafræðina í NPA. Þú getur einnig skipulagt sérstaka starfsmannafundi nokkrum sinnum á ári til þess að fara yfir einstök mál, hvernig þú vilt hafa hlutina, hvernig þú vilt að aðstoðarfólkið þitt komi fram og hvernig það hagi sér við tilteknar aðstæður. Þá getur þú einnig gefið aðstoðarfólkinu þínu tækifæri til þess að koma með ábendingar og athugasemdir.

Þín aðstoð – þínar reglur

Það getur einnig verið gagnlegt fyrir þig að setja ákveðnar vinnureglur eða húsreglur á heimilinu þínu sem aðstoðarfólk ber að fara eftir á vinnutíma, s.s. að vera ekki í síma, mæta snyrtilegir til fara o.s.frv. Einnig að hafa skriflegar leiðbeiningar um að tiltekin glös eigi ekki að fara í uppþvottavél, gluggar skuli vera lokaðir og að útiskór eigi að fara í tiltekna skóhillu, svo dæmi séu tekin.

Fáðu aðstoð frá ráðgjafa þínum hjá NPA miðstöðinni við að setja upp húsreglur eða vinnureglur fyrir þig.

Vinnustaðamenningin þín

Það getur verið nauðsynlegt fyrir þig að reyna að treysta í sessi ákveðna vinnustaðamenningu í tengslum við aðstoðarfólkið þitt. Vinnusambandið milli þín og aðstoðarfólks er óneitanlega sérstakt. Aðstoðarfólkið þitt vinnur alla jafna á heimili þínu og aðstoðar þig jafnvel við allar athafnir daglegs lífs, bæði leik og starfi. Þarna getur skapast náið samband og vinátta sem síður myndast á öðrum vinnustöðum milli vinnuveitanda og launþega. Þetta getur bæði haft jákvæð og neikvæð áhrif. Það er í sjálfu sér jákvætt að aðstoðarfólkið þitt þekki þig vel, þekki þínar þarfir, væntingar, hvernig þú vilt hafa hlutina o.s.frv. Hins vegar getur með tímanum þetta samband leitt til þess að staðan milli þín og aðstoðarmanneskjunnar verði óskýrari og að vinnutilfinning aðstoðarmanneskjunnar veikist.

Gott er að treysta þessa vinnustaðatilfinningu hjá aðstoðarfólki í sessi alveg frá upphafi og viðhalda henni. Þetta þýðir að aðstoðarfólk upplifir að það sé í vinnunni á vinnutíma og að þú upplifir að aðstoðarmanneskjan þín sé launþegi sem þiggi laun fyrir að aðstoða þig, en sé ekki að gera þér greiða eða hjálpa þér. Það má m.a. gera með því að útbúa fastan verkefnalista sem aðstoðarmanneskja getur gengið í þegar þú er ekki í aðstöðu til þess að tjá þig eða gefa fyrirmæli, eða við tilteknar athafnir daglegs lífs, s.s. þrif, birgðakönnun og innkaup, vökva plöntur, skipta um rúmföt o.s.frv. Þetta getur líka verið gagnlegt svo að þú þurfir ekki sífellt að gefa aðstoðarfólki þínu fyrirmæli og að það skapist festa og fyrirsjáanleiki í starfi aðstoðarmanneskjunnar.

Starfsmannafundir

Það er góð regla að halda starfsmannafundi með reglubundnum hætti, 1-2 á ári. Þú þarft ekki að alltaf að halda starfsmannafundi með öllu aðstoðarfólkinu þínu í einu, en starfsmannafundirnir eru hugsaðir til þess að gefa þér tækifæri til þess að fara yfir það sem er vel gert og það sem betur mætti fara. Einnig getur aðstoðarfólk fengið tækifæri til þess að koma sínum sjónarmiðum á framfæri við þig ef það telur ástæðu til þess að taka eitthvað upp sem má bæta, til dæmis við starsfmannaaðstöðuna. Oft líður aðstoðarfólki betur með að vita að það getur tekið svona mál upp á sérstökum fundi og er því ekki að burðast með það eða taka það upp á tímum þar sem þú ert ekki undibúin/n/ð fyrir það.

Starfsmannafundir eru einnig gagnlegir til þess að fara yfir orlofstímabil, skipulag á sumarfríum eða breytingar sem eru framundan hjá þér.

Vinnuskilyrði aðstoðarfólks

Stór hluti af þeim málum sem koma upp í samskiptum milli verkstjórnenda og aðstoðarfólks varða vinnuskilyrðin og vinnuaðstöðuna. Það er á þína ábyrgð sem verkstjórnandi að sjá til þess að vinnuskilyrði, aðbúnaður og öryggi á vinnustaðnum séu í góðum málum.

Lestu meira um þetta í kaflanum um „Vinnuskilyrði aðstoðarfólks.“

Samskiptavandi og árekstrar á vinnustað

Samskiptavandi á vinnustað getur haft víðtæk áhrif, dregið verulega úr frammistöðu aðstoðarfólks og haft neikvæð áhrif á líðan þeirra og þína. Þegar slík mál koma upp er mikilvægt að leggja sig fram um að leysa málin á farsælan hátt.

Þegar farið er í að leysa úr samskiptavanda þarf að hafa ákveðin atriði að leiðarljósi frá upphafi:

  • Hvers eðlis er vandinn, þ.e. hver er rót vandans?
  • Hvernig getum við lagað vandamálið?
  • Hvaða lærdóm getum við tekið af vandanum?
  • Hvað þurfum við að gera til að koma í veg fyrir að samskonar vandi komi upp aftur? Þarf fyrirbyggjandi aðgerðir? Er eitthvað sem vantar?
  • Ef við komumst ekki að sameiginlegri niðurstöðu og sáttum upp á eigin spýtur, hvað gerum við þá?

Við lausn samskiptavanda er mikilvægt að fara ekki fram úr sjálfum sér. Stundum er jafnvel nauðsynlegt að bakka frá og „kæla“ sig því sterkar tilfinningar eins og t.d. reiði geta valdið því að maður hugsar ekki rökrétt á þeim tímapunkti sem tilfinningarnar eru sterkastar.

Þegar komið er að því að ræða hlutina til lausna er mikilvægt að vanda orðavalið. Þá er mikilvægt að ræða hlutina út frá eigin upplifunum án þess að setja þá fram í ásökunartón.

Dæmi

Verkstjórnandi: „Ég þoli ekki þegar þú gerir þetta svona. Svo gerir þú þetta líka vitlaust og hlustar ekki á mig.”

Vænlegra upphaf að samræðum gæti verið á þennan veg:
Verkstjórnandi: „Það skiptir mig máli að hlutirnir séu gerðir á ákveðinn hátt. Þegar hlutirnir eru framkvæmdir öðruvísi en mér hugnast best, þá líður mér illa. Við þurfum að finna lausn á þessu.”

Eðli vinnusambands milli verkstjórnanda og aðstoðarfólks í NPA er ætíð þannig farið að verkstjórinn stýrir sinni þjónustu að fullu og öllu leyti. Aðstoðarfólki ber því að sinna óskum verkstjórnenda sinna innan þess ramma sem eðlilegt getur talist og virða óskir þeirra og þarfir eftir bestu getu.

Ef upp koma mál sem þú telur þig ekki ráða við að leysa úr, þ.e. á milli þín og aðstoðarfólks eða á milli tveggja aðstoðarmanna getur þú haft samband við NPA miðstöðina og fengið ráðgjöf. Ráðgjafar miðstöðvarinnar leggja sig fram um að leysa málin á farsælan hátt í hvert sinn. Stundum þarf að koma á fundi með viðkomandi aðilum og hlutlausum aðila, en stundum er nóg að ræða málin í gegnum síma eða tölvupóst.

Hvað get ég gert sem verkstjórnandi til þess að koma í veg fyrir árekstra?

  • Hafðu vinnuramma aðstoðarfólks skýran og vertu viss um að allt aðstoðarfólkið þitt þekki sín hlutverk og til hvers er ætlast af því. Þetta gerir þú meðal annars með góðri starfslýsingu.
  • Safnaðu ekki í sarpinn. Þ.e. ef það er eitthvað sem er öðruvísi en þú vilt hafa það, ræddu það þá strax. Ekki geyma málin þannig að það safnist upp pirringur eða aðrar neikvæðar tilfinningar innra með þér.
  • Hafðu reglurnar á heimilinu þínu skýrar, settu umgengnisreglur eða skriflegar leiðbeiningar um hvernig þú vilt hafa hlutina.
  • Farðu yfir mörkin milli þín og annars heimilisfólks gagnvart aðstoðarfólki. Settu reglur eða viðmið um hvernig aðstoðarfólk á að bregðast við í tilteknum aðstæðum, t.d. þegar heimilisfólk, vinir eða skyldmenni verkstjórnanda spyrja aðstoðarmanneskju spurninga eða biðja hann um að gera eitthvað.

What’s a Rich Text element?

THversu margar vinnustundir aðstoðarfólks hefur þú sem verkstjórnandi úr að spila?

  • Hvað gerir þú yfir daginn? Þetta getur auðvitað verið mismunandi eftir vinnutímabilum og t.d. Árstíðum.
  • Gott er að hafa í huga við gerð vaktaskipulags hvenær vaktaskipti aðstoðarfólks eiga sér stað. Hvar ertu eða hvað ertu að gera þegar vaktaskipti eiga sér stað? Eru vaktaskiptin á heppilegum tíma fyrir þig?
  • Viltu lifa hvatvísu lífi eða viltu hafa meiri reglu á hlutunum?
  • Stundar þú áhugamál eða tómstundir sem krefjast aðstoðarfólks sem er með sérstök áhugamál, lífsvenjur, þekkingu eða kunnáttu?
  • Er starfið sem þú veitir og skipuleggur starf sem einhver myndi vilja vinna? Hugsaðu út frá sjálfri/sjálfum þér, hvort þú myndir sækja um starf hjá þér. Ertu með vinnustundirnar á hreinu? Getur aðstoðarfólk komist auðveldlega í og úr vinnu? Fær aðstoðarfólk skýr fyrirmæli í vinnunni?

Kaflayfirlit